Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:39:55 (2433)

1997-12-16 22:39:55# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, Frsm. meiri hluta ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:39]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég greindi á máli hv. síðasta ræðumanns að ég muni hugsanlega hafa talað óskýrt um afstöðu einstakra þingmanna innan meiri hluta í hv. sjútvn. Það er svo sem kemur fram í nefndarálitinu að einn þeirra hefur fyrirvara við málið og hefur lýst skoðun sinni hér. Nokkrir aðrir einstaklingar í þeim meiri hluta, þó ekki meiri hlutinn allur, hefur samt þá skoðun sína að stefna eigi að ákveðnu marki um þær takmarkanir sem eru í gildi og þær takmarkanir sem verða í gildi þegar þetta frv. með þeim breytingum sem við leggjum til verður orðið að lögum. Við höfum hins vegar ekki tekið undir að það eigi að segja eða ákveða á þessu þingi að það eigi að vera í gildi einhvern tiltekinn skamman tíma eins og minni hlutinn leggur til. Við erum ósammála minnihlutamönnum um það. Við teljum það ólán miðað við efnahagslegar staðreyndir sem við höfum fyrir okkur og ólán miðað það sem við getum ályktað um þær ákvarðanir sem menn taki þegar þeir sjá slík ákvæði sem til að mynda minni hlutinn hefur lagt til.