Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:44:07 (2436)

1997-12-16 22:44:07# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:44]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Er það nú lógík í röksemdafærslunni. Hv. þm. kemur hér og segir: Við erum á því að það eigi að afnema þessar reglur sem við erum að biðja þingið um að setja en við ætlum að halda því leyndu hvenær eigi að gera það, þ.e. þeir vita það svo sem sjálfir. Einhverja hugmynd hljóta mennirnir að hafa um það sem eru að lýsa því yfir að þeir telja að það eigi að afnema reglurnar. Einhverja hugmynd hljóta þeir að hafa um það hvenær á að gera það og hvernig en þeir neita að skýra frá því. Þeir ætlast sem sé til að útgerðarmenn lifi við óvissuna, leggi í jafnvel hundruð millj. kr. kostnað við endurnýjun og vakni svo upp við það að einn góðan veðurdag að hv. þingmönnum þóknist að segja hvað þeir eru að hugsa með þessum yfirlýsingum.

Hv. þingmenn eru ekkert bangnir við að leggja að óþörfu tuga og hundrað millj. kr. skatta á sjávarútveginn að ástæðulausu.