Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:45:31 (2437)

1997-12-16 22:45:31# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:45]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki orðið var við það hjá þingmönnum, eru þar fáir upp taldir og þar á meðal síðasti ræðumaður, sem leggja í vana sinn að hafa það eftir sem fram fer á nefndarfundum þingsins og nú sjútvn. þar sem jafnvel eru persónuleg samtöl manna í milli eða á stundum í léttum dúr. Þessi umræða er flutt hingað inn í þingsalina. Ég hef ekki lagt þetta í vana minn en ég ætla samt sem áður að rifja það upp að hv. þm. minni hluta sjútvn. var mjög margátta og margar skoðanir voru um það hvernig ætti að taka á þessu máli. Ég man ekki betur en einhverjir hafi verið að tala um að eðlilegt væri að afnema þessar reglur strax. En nú hefur orðið einhver málamiðlun í minni hlutanum og það er talað um árið 2001. Það væri gott að fá það fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Sighvati Björgvinssyni. Hverjir voru það sem vildu afnema reglurnar strax? Hverjir vildu hafa árið 2001 og hvernig gekk samkomulagið til? En annars ætla ég ekki að leggja það í vana minn að ræða um það sem fer fram persónulega manna á milli í nefndum og ég hugsa að þetta sé einsdæmi sem fram kom hjá síðasta ræðumanni.