Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:54:19 (2442)

1997-12-16 22:54:19# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:54]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Reglur um endurnýjun fiskiskipa og tilraunir til að stemma stigu við henni svipað og hér um ræðir eiga sér miklu eldri sögu. Ef mig minnir rétt, þá voru þær reglur fyrst settar í sjávarútvegsráðherratíð Kjartans Jóhannssonar sem tilraun til þess að draga úr sóknarþunga fiskiskipaflotans við allt aðrar aðstæður en urðu eftir að kvótakerfið var sett á. Þarna fer því hv. þm. rangt með. Á sínum tíma var verið að reyna að gera tilraun með því að gera endurnýjunarreglurnar að stjórnkerfi í fiskveiðum sem kvótakerfið síðan leysti af hólmi.

Það er líka rangt hjá hv. þm. að við í minni hlutanum séum á móti þeim tilslökunum sem verið er að gera í þessu efni núna. Það sem við erum að segja er að vilji er fyrir því á Alþingi og meirihlutavilji í sjútvn. að gera ekki breytingar sem eigi að eiga sér varanlega framtíð heldur stefni að því að afnema þær. Við segjum: Þetta á þingið að segja. Það á að skýra frá þessu. Það á ekki að setja lög, láta í veðri vaka að verið sé að gera þar breytingar til einhverrar framtíðar þegar vilji manna stendur til þess að þær breytingar eigi að eiga sér skamman aldur og þau skilaboð eru þegar komin frá þessum fundi, virðulegi forseti, því að svo margir þingmenn hafa tjáð sig í þá veru, að þau skilaboð eru skýr sem verið er að senda frá þessu þingi. Það er pólitískur vilji til þess á Alþingi að afnema þessar reglur og þá ber Alþingi skylda til þess að eyða vafa um hvernig og hvenær.