Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:57:19 (2444)

1997-12-16 22:57:19# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:57]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að lög um takmörkun á endurnýjun fiskiskipa voru sett löngu áður en núverandi kvótakerfi var lögleitt þannig að þar er engin nýlunda sem fylgdi kvótakerfinu. Þeir sem fylgdust með stjórnmálaátökum á þeim tíma muna eftir þeim átökum sem þá urðu milli hæstv. þáv. ráðherra Kjartans Jóhannssonar og Lúðvíks Jósepssonar út af þessu.

Í öðru lagi hefur hér komið fram að pólitískur vilji er fyrir því að þessar reglur verði ekki langlífar þannig að það er rangt sem hv. þm. fullyrðir að hafi komið fram, þ.e. að pólitískur vilji sé fyrir öðru. Það kom glögglega fram hjá hv. þm. sem talaði áðan með fyrirvara að hans hugur stendur til þess --- það er hans pólitíski vilji --- að þessar reglur verði afnumdar, m.a. með öryggishagsmuni og aðbúnað sjómanna fyrir augum þannig að pólitískur vilji er fyrir því á þingi að þessar reglur standi ekki lengi og þeim sem hafa þann pólitíska vilja ber því skylda til þess að skýra frá því hvernig eigi að afnema og hvenær. Það er ekkert óeðlilegt við það að sett séu sólarlagsákvæði í lög. Það hefur oft verið gert.