Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 23:19:07 (2448)

1997-12-16 23:19:07# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[23:19]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 19. þm. Reykv. hefur nú tekist, allt síðan hún settist á þing, að misskilja flest um íslenskan sjávarútveg og fara rangt með annað. Og það var við því að búast að þetta væri tillegg hennar til umræðunnar um endurnýjun fiskiskipaflotans.

Sannleikurinn er sá að allar þjóðir heims, allar fiskveiðaþjóðir, leitast við að stjórna fiskveiðum sínum með það eina markmið að ná jafnvægi milli flotans, sóknargetunnar og fjárfestingarinnar og afraksturs fyrir stofnana. Ég fullyrði að allar þjóðir heims öfunda Íslendinga af þeim árangri sem þeir hafa náð í að minnka flotann því að á sama tíma og okkar floti hefur sannarlega verið að minnka og afkastageta hans hefur minnkað mjög mikið nú á annan áratug, þá hafa allir fiskiskipaflotar í grenndinni í Evrópu, líka í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi, verið að stækka. Það hefur verið vandamál allra nema okkar að fiskiskipaflotarnir eru allir að stækka nema okkar, hvernig sem menn láta þetta fara í taugarnar á sér eða telja þetta vera einhverja stíflu eða til vandræða. Það er sannarlega rétt að sjávarútvegurinn sjálfur hefur staðið fyrir þessum breytingum. Hann hefur borgað og því ber að líta á hagsmuni sjávarútvegsins sem einnar heildar og það er það sem löggjafanum á hverjum tíma ber að hafa í huga, heildarhagsmunina. Telji einhver sig vera aflögufæran, telji hann sig hafa svo hagkvæma útgerð að hann geti fórnað til þess að kaupa sér stærri útgerð, þá gerir hann það. Hann gerir það af frjálsum vilja. Það er frjáls verslun og frjáls viðskipti. Vilji einhver hætta og fái hann þannig peninga fyrir að hætta, þá eru það velkomnir peningar. Það eru frjáls viðskipti. Þetta höfum við verið svo gæfusamir að nota okkur núna í 13 ár. Það hefur borið árangur og það er ástæða til þess að halda því áfram.