1997-12-17 00:07:50# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, GMS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:07]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Málefni smábáta stefnir nú í að þetta verði hálfgert leikrit sem endist okkur kannski út kjörtímabilið með sama áframhaldi. Það sem er þó sérstakt við það núna er að það vandamál sem verið er að reyna að taka á í dag er komið til af því góðæri sem þessir bátar hafa búið við og hefur kallað á það að menn hafa fjórfaldað það leyfilega aflamark sem sóknarbátarnir hafa sótt í greipar hafsins.

Ég held að sú lending að heimila mönnum að velja upp á nýtt, að færa sig yfir í aflamarkskerfið, sé í rauninni eina lendingin sem menn gátu náð í þeirri stöðu sem var komin upp og ég styð mjög þá leið. Hins vegar er ég nokkuð hugsi yfir c-lið 1. gr. í frv. um heimild til að framseljan varanlega þorskaflahámark krókabáts til annars krókabáts.

Ég er almennt mikill stuðningsmaður framsals í fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum og tel að það sé eitt af grundvallaratriðum í kerfinu að menn megi framselja það aflamark sem þeim er úthlutað, það sé grundvöllur að hagræðingu í greininni og að í rauninni væri lítið gagn í því aflamarkskerfi sem við búum við og höfum ef ekki væri framsalið. Hins vegar er ég ekki alveg sannfærður um að það sama gildi um smábátana og þar kemur tvennt til. Í fyrsta lagi er ég ekki viss um að mikið hagræði sé í því að þegar meðaltalsaflamarkið er komið í 63 lestir að fara að auka það aflamark sem má veiða á smábátana upp fyrir þetta meðaltal, 63 lestir, þegar menn væru komnir kannski upp í 200 lestir á smábát. Ég sé ekki hagræði í því þó að ég segi að þetta hagræði eigi að gilda almennt í sjávarútvegi að geta flutt kvóta yfir á færri skip.

Hitt er síðan að fjölmargar byggðir í landinu byggja tilveru sína á því að gerðir séu út smábátar frá þessum byggðarlögum. Mörg byggðarlög liggja nærri fiskimiðunum og ættu þannig, ef menn horfa á hagfræðirökin í þessu, væntanlega að standa vel að vígi. Hins vegar kemur líffræðilegi þátturinn að þessu líka. Við vitum að þorskurinn sem veiðist fyrir suðurströndinni, alveg frá Hornafirði og að Snæfellsnesi er mjög stór fiskur, 7 kg og upp í 12 kg meðan menn eru að veiða 2,5 kg og 3 kg þorsk fyrir Vestfjörðum. Sá fiskur sem við erum að veiða fyrir suðurstönd landsins er að seljast allt að 70--75% hærra verði en smáþorskurinn vegna þess hagræðis sem er að taka þennan stóra fisk í gegnum vélar og eins þess hagræðis sem er að því að salta fiskinn. Ég óttast að með þessu móti muni smábátarnir sem eru gerðir út frá suðurströndinni, Hornafirði, Vestmannaeyjum og Reykjanesi, standa mun betur að vígi hvað þetta varðar og þannig verði verulegur flutningur á aflamarki af smábátum frá norðausturhluta landsins frá Vestfjörðum og jafnvel Norðurlandi í heild yfir til þessa landsvæðis á Suðurlandi. Miðað við þann vanda sem við stöndum frammi fyrir almennt í byggðamálum held ég að ekki sé rétt að stuðla að þessu þó að ég ítreki að almennt séð er ég stuðningsmaður opins og óhindraðs framsals aflaheimilda.