1997-12-17 00:12:04# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, EOK
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:12]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tel varla þurfa á hinu háa Alþingi að taka fram að ég hef alla tíð haft miklar efasemdir um að við værum á réttri braut í stjórn fiskveiða okkar og deili mörgum áhyggjum mínum með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og þau atriði sem hann kom inn á fyrr í kvöld. Ég hef miklar áhyggjur af líffræðilega þættinum í þessu. Ég hef miklar áhyggjur af því að við séum að veiða ofan af stofninum ef svo mætti að orði komast. Við erum að útdeila þyngdareiningum, kílóum, tonnum, og það eru eðlileg viðbrögð þeirra sem sækja sjóinn að þeir sæki í verðmestu fiskana. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því vegna þess að ég er sannfærður um það að stofnformið sjálft geti verið lykillinn að því að fiskstofnar við Ísland geti borið þær veiðar sem við sannarlega bárum ein 70 ár. Við vorum að fiska í ein 70 ár um 370 þúsund tonn af þorski á ári. Það var það sem þorskstofninn bar og það var þar sem við þurfum svo rosalega mikið á að halda að ná fullri nýtingu á þessum stofni. En í dag erum við að veiða um það bil 55--60% af því sem við áður gátum veitt. Vangaveltur síðasta ræðumanns, hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar um framsal aflaheimilda hjá krókabátum eru áhyggjur sem sannarlega er ástæða til að taka undir í kerfinu sem heild. Þetta er hið líffræðilega áhyggjuefni sem við þurfum mjög að taka á og fjalla um.

Ég deili líka með honum áhyggjum mínum um byggðamálin. Ég deili áhyggjum mínum yfir því hvaða áhrif þetta kann að hafa á byggðirnar og ég tel að það hafi ekki verið rannsakað á hlutlægan hátt og þurfi að gera það vegna þess að ef við ætlum að meta hvaða árangri við erum að ná í stjórn fiskveiða þarf að meta fjárhagslega ávinninginn ásamt því að líta til hins líffræðilega og hins félagslega þáttar. Án þess að taka þetta allt saman inn í erum við ekki að reikna rétt. Við verðum að taka alla plúsa og alla mínusa ef við ætlum að geta komist að einhverri niðurstöðu hvar við erum staddir. Ég gæti alveg tekið undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að mikil þörf væri á því að endurskoða í heild allt kerfi smábátanna sem við erum að nota á grunnslóðinni. Ég er ekki alveg viss um það, herra forseti, að ég sé alveg sammála um það hvernig það væri best gert en ég tek undir ummæli hans um að nauðsynlegt sé að horfa til þess í heild.

[24:15]

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að það sem gefur einu stjórnunarkerfi gildi er framsal og ég tel að framsal í sóknarstýringu hafi nákvæmlega sama gildi og framsal í aflakerfi. Ég veit til þess að Færeyingar og fleiri þjóðir sem hafa reynt að stjórna sókn sinni eru með framsal á þá sókn. Þeir eru með framsal á veiðidögum og ég veit að hægt er að meta afkastagetu skipa þannig að hægt er að sjá hvort það sem á að framselja er sambærilegt.

Ég vildi segja þetta, herra forseti, í upphafi máls en eins og allir vita fjalla þau nefndarálit sem fyrir liggja um það samkomulag sem hæstv. sjútvrh. gerði við Landssamband smábátaeigenda um það að breyta kerfi þeirra enn á ný. Ég hef litið þannig á að við höfum verið að vinna að því markvisst að finna lífsrými fyrir þennan smábátaflota. Ég get alveg tekið undir að það sé ekki endilega með sérstökum sóma þegar eitthvað hefur verið lögfest í þeim efnum. Ég tel þó að við höfum verið að stíga framfaraskref, verið að þoka málinu í þá átt að einyrkjarnir á þessum bátum geti lifað af. Ég tel það hafa tekist og þær breytingar sem við erum að gera hér í dag séu líka til hins góða. Það er verið að leyfa mönnum endurval, fjölga róðrardögunum, opna nýja möguleika fyrir þá sem vilja fara út úr greininni og opna Þróunarsjóðinn á ný. Allt þetta hefur það í för með sér að skapa betra lífsrými fyrir þá sem eftir eru.

Mér kemur það á óvart en mér finnst gæta nokkurra hortugheita í nefndaráliti minni hlutans þar sem gefið er í skyn að hjá okkur sem höfum verið að reyna að koma þessu máli til einhvers vegar á undanförnum árum hafi allt verið með endemum. Ég vil mótmæla því, herra forseti. Við höfum sannarlega verið að leggja okkur alla fram um að finna á þessu lausn og ég hef talið það meiri háttar sigur í hvert skipti sem hefur tekist að ná samkomulagi við Landssamband smábátaeigenda. Þar hafa menn náð einhvers konar samkomulagi sem menn treystu sér kannski til þess að reyna að una við þó enginn væri sérlega vel sáttur.

Ég er viss um það að frv. það sem lögfest mun núna er til bóta og ég veit að menn fagna því. Ég segi hins vegar alls ekki að þetta sé einhver óskastaða. Þar er langt í frá. Við verðum að tryggja einyrkjann í íslenskum sjávarútvegi. Annars værum við að gera skelfilega vitleysu. Mér virðist það koma fram í nefndaráliti minni hlutans að stjórnarandstaðan hafi varað við öllu saman 1996. Á milli línanna mætti lesa að við hefðum ekki viljað hlusta á það. Það er rangt. Við vissum mætavel að við mundum fara eitthvað yfir. En ég segi, herra forseti, eins og staðan er á stjórn fiskveiðanna í dag, ástandið er á höfnum og miðum Íslands að það er fáránlegt hafa áhyggjur af því hvort smábátaflotinn veiðir 3 þúsund, 4 þúsund eða 5 þúsund tonnum meira eða minna á á ári. Það gerir bókstaflega ekkert til. Það hefur engin áhrif á nokkra þætti sem okkur skipta máli. Hér höfum við vitandi vits gert samkomulag. Við vissum alltaf hreint að ef fiskigengd á grunnslóð væri mikil og vel viðraði við stendur landsins, þá gætu menn vissulega fiskað meira en menn hefðu gert ráð fyrir. Ég ætla hins vegar að minna á að á Íslandsmiðum hefur lagst í suðvestanátt heilu sumrin og lítið gera skakbátar þá. Það er ekkert víst að við allar aðstæður hafi sá rammi sem smábátarnir fengu farið sérstaklega mikið yfir. Það gæti gerst á morgun eða næsta ári að erfitt verði að sækja sjóinn á grunnslóðinni og þá verða menn ekki of sælir af þeim 40 dögum þeim er úthlutað í þessu frv. Eins og við vitum gengur misjafnlega að fiska. Fiskur gengur misjafnlega á grunnslóð og þetta ekkert sem við eigum að hafa áhyggjur af. Sú tíð gæti komið að íslenskir smábátar nái bara alls ekki því magni sem menn hafa gert ráð fyrir. Þessar áhyggjur eru ástæðulausar. En dálítið finnst mér kyndugur tónninn í nefndarálitinu, sérstaklega þar sem ég man það vel að vorið 1996, þegar við lögðum fram okkar tillögur í sjútvn., þá var það ekki eingöngu stjórnarmeirihlutinn heldur einnig hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem skrifaði undir það álit. Nú skrifar hv. þm. undir þetta nefndarálit þannig að ekki er langtímaminnið að hrjá menn þegar þeir skrifa þessa texta. Hann stóð að því og ég vona að hann hafi haft af því heilmikinn sóma.

Ég tel að við eigum að samþykkja þetta frv., herra forseti. Ég tel að það sé til muna skárra eins og hv. þm. Steingrímur Sigfússon orðaði það. Það er til muna skárra og því er rétt að samþykkja það. Enginn heldur því fram að þetta frv. sé neitt óskafrv. en það er mun skárra og sjálfsagt að reyna að ná samkomulagi. Ég held því fram að þeir 40 dagar sem róðrarbátarnir fá séu síst of margir. Þeir hefðu þurft að vera fleiri eins og veðrið sveiflast til á Íslandsmiðum. En ef svo árar 1998 sem 1997, þá mun þetta verða í lagi og menn munu komast af.

Hitt er annað mál að nauðsynlegt er og tilgangur okkar með þessum breytingum að finna rými fyrir smábátana. Við byrjuðum á því 1995 með því að að stöðva fjölgunina. Engin höft voru á fjölgun smábáta. Það var upphafið að vandræðununum. Ef menn ætla að fara áfram þá verða þeir að hætta að fara aftur á bak. Við höfum verið að reyna að vinna okkur út úr þessu. Ég minni á það, herra forseti, að þegar við byrjuðum á því vorið 1995, nokkrum dögum eftir að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hætti sem ráðherra þannig að ég vil ekki samþykkja að við höfum verið sérstaklega lélegir í þessu. Ég tel að hæstv. sjútvrh. og sjútvn. hafi allan þennan tíma reynt að finna sameiginlega lausn sem menn gætu sætt sig við. Það hefur verið markmiðið. Því er þetta frv. flutt og því fagna ég þessu frv. sem áfanga í þá átt að ná sáttum í þessu máli. Mikilvægt er að hafa sátt. Það var óþolandi eins og var fyrir nokkrum árum þegar litið var á smábátana sem vandræðafley. Smábátarnir eru hluti af íslenska fiskiskipaflotanum og við verðum að finna þeim rými. Það verður að vera sátt á milli minni bátanna og þeirra stærri. Með þeim reglum sem við höfum og viðleitni til að minnka þennan flota, ættu að skapast á næstu árum þær aðstæður að allur íslenski flotinn komist fyrir á Íslandsmiðum. Bátar smáir og stórir ættu að geta náð þeirri stöðu að hafa viðunandi afkomu. Það á ekki síst við landsbyggðina því mjög víða byggja lítil sjávarþorp á afkomu smábátanna. Þar halda einyrkjarnir, útgerðarmennirnir í þorpunum uppi starfi og lífi. Hér er mikil þörf fyrir sátt. Ég tel að það sé mikill sómi að þessu nýja samkomulagi milli hæstv. sjútvrh. og Landssambands smábátaeigenda og aldrei eigi að líta svo á að þetta verði endanlegt. Þetta verður að lögum, verða lög svo lengi sem pólitískur vilji er til. Við verðum að sjá til. Við erum að fara út í ákveðna óvissu, ég viðurkenni það en trúi því samt að með breytingum þessum, með því að opna Þróunarsjóðinn, með því að leyfa mönnum endurval, þá séum við að skapa möguleika til þess að þokkalegt jafnvægi náist. Að því er stefnt og því styðjum við eindregið þetta frv.