1997-12-17 00:28:25# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:28]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það kann að vera rétt hjá hv. þm. að vörn mín sé fólgin í því að taka skuli viljann fyrir verkið. Það er nú margra hógværra háttur að orða það svo. Hitt ætti sá reyndi þingmaður að vita hér enginn fer lengra en hann kemst. Það er pólitískt samkomulag og öðruvísi ná menn ekki árangri. Þannig hlýtur það að vera, herra forseti. Sá ágæti hv. þm. hlýtur að hafa mátt beygja sig fyrir staðreyndum, fyrir vilja þeirra sem hann hefur unnið með. Ég tel í lagi að orða það svo hógvært. Hins vegar vil ég meina að umtalsverður árangur hafi náðst í að fækka skipunum eftir að þeim hafði fjölgað viðstöðulaust fram til vorsins 1995. Nú hefur þeim fækkað verulega. Nú má segja að mjög margir þeirra nái nokkurn veginn þokkalegri afkomu. Hitt er rétt að enn er óvissa um afkomu róðrardagabátanna vegna þess að hvorki hefur verið talið rétt né hægt að semja um ramma fyrir þá. Að mínum dómi er mjög nauðsynlegt að gera það. Ég tek undir það með hv. þm. en á undanförnum árum hefur fiskgengd vaxið við Ísland, sérstaklega á grunnslóðinni þannig að mörgum hefur þótt nóg um afla smábátanna. Ég vil bara minna á að þetta hefur ekki alltaf verið svo. Aflinn, sóknin og getan til að veiða rís og hnígur. Menn eiga því eftir að sjá erfið ár í sókninni á grunnslóðina.