1997-12-17 00:34:26# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:34]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er kunnugt um þá skelfingu sem það var fyrir íslenska fiskiskipaflotann, svo ég tali nú ekki um togaraflotann og þorskveiðiskipin þegar heimildir þeirra voru skertar um helming. Ég þekki það af eigin skrokk og því þarf ekki að minna mig á það. Ég veit allt um hvílík fórn það hefur verið. En ég spyr aftur og aftur: Hvað höfum við getað gert við þennan flota sem stjórnvöld leyfðu að kæmi hér inn? (Gripið fram í.) Nei, þeir hleyptu þessu inn. Það var bannað að endurnýja skip stærri en 10 og svo niður í 6 tonn. Þetta gat var skilið eftir. Stjórnvöld gerðu það og ég hef litið þannig á að stjórnvöld bæru ábyrgð á því að finna þeim stað. Ég tel að þetta frv., eins og fyrri tilraunir okkar, miði að því að bæta fyrir þau mistök sem sannarlega áttu sér stað á fyrstu átta árum kvótakerfisins. Þau að loka ekki fyrir smábátana eins og var gert við önnur skip.