1997-12-17 00:44:11# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:44]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. þegar hann segir að sitthvað í þessu frv. sé til bóta fyrir smábátasjómenn. Ég er ekki að gera lítið úr því. Ég vek hins vegar athygli á því að þetta er í þriðja skipti á þremur árum sem fram koma nýjar hugmyndir um hvernig ná eigi utan um veiðar smábátanna. Það er ekki par trúverðugt þegar menn reyna þrisvar sinnum á þremur árum að ná utan um veiðar smábáta hér við land.

Ég get tekið undir það með hv. þm. að það er engin sátt á milli stórra báta og lítilla báta. Það er engin sátt á milli þessara kerfa. Og sú eina stefna sem hér er þó að finna er sú að þrýsta smábátunum inn í kvótakerfið án þess í raun og veru að hafa manndóm í sér ... Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson! Það væri ágætt ef þú hlustaðir á andsvarið.

(Forseti (ÓE): Forseti biður hv. þm. að gæta þingskapa varðandi ávörp.)

Ég var að vísa til þess, hæstv. forseti, að þar sem ég væri í andsvari við Einar Odd Kristjánsson væri æskilegt að hann veitti máli mínu athygli.

(Forseti (ÓE): Já, en það á ekki að ávarpa þingmanninn beint.)

Ég mun ekki gera það aftur, hæstv. forseti.

Það sem ég var að segja er að með þessu frv. er verið að þrýsta mönnum inn í kvótakerfi eða aflamarkskerfi smábáta. En maður saknar þess örlítið að hv. þingmenn og meirihlutamenn hafi þó ekki þann manndóm í sér til að segja að þeir vilji leggja af róðrardagakerfið og taka upp aflamarkskerfið. Mönnum er þrýst inn í þetta. Maður saknar skýrrar stefnu, virðulegur forseti. Og því segi ég enn og aftur að fjórði þáttur í leikriti hæstv. sjútvrh., í leikhúsi fáránleikans verður fluttur að ári liðnu.