1997-12-17 00:51:40# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, Frsm. meiri hluta ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:51]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Við lok umræðunnar vil ég láta það koma fram sem ég hef rætt við hv. nefndarmenn í sjútvn. að í dag hefur mér borist erindi frá formanni Landssambands smábátaeigenda sem óskar þess að við gerum frekari breytingar á málinu. Ég hef lýst því yfir við hv. nefndarmenn að ég muni beita mér fyrir því við 3. umr. um málið og ég hef kynnt hverjum og einum nefndarmanni þá ætlan mína.

Að öðru leyti, herra forseti, vil ég geta þess almennt um þetta mál vegna þess að aðrir sem tekið hafa þátt í umræðunni hafa gerst langorðari en ég þegar ég gerði grein fyrir nál. og tillögum meiri hluta nefndarinnar að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé grundvallarágalli á stjórnkerfi okkar við fiskveiðar að þar eru í raun mörg stjórnkerfi. Mér sýnist að við höfum þá reynslu af sóknarstjórnkerfi sem enn er til meðal smábáta að það leiði til mismununar. Ég get ekki ætlað mér þá dul, herra forseti, að áætla hvað þingmönnum þess tíma hefur gengið til að ákveða eitt sinn mjög miklar skerðingar á veiðirétti stærri skipa en skilja eftir það gat ef svo má segja að smábátum mátti fjölga verulega við óhefta sókn. Enda hefur raunin orðið sú að sóknargeta þeirra hefur reynst miklu meiri en menn gerðu sér í hugarlund. Við stöndum enn frammi fyrir þessum vanda. Hann hefur birst í því að þeir smábátar sem róa enn við sóknardagakerfi hafa getað aflað miklu meira en viðmiðun sagði til um. Sú viðmiðun var byggð á aflareynslu þeirra fyrir aðeins nokkrum árum. Ég tel nauðsynlegt að við stefnum í þá átt sem varla tekst þó nema með samkomulagi við þá sem við þurfa að búa að í fiskveiðum gildi einungis almennar reglur þar verði einungis beitt almennum aðgerðum en ekki sértækum hvorki leikreglum né aðgerðum.

Ég verð að viðurkenna að ég hef mestar áhyggjur af þeim bátum sem við nefnum oft smærri aflamarksbátana. Það á ekki eingöngu við um svonefnda smábáta á aflamarki, báta allt að 10 tonn að stærð, heldur líka báta sem eru nokkru stærri og eru mjög aðþrengdir í veiðiheimildum og hafa varla burði, hvorki vegna vélarstærðar né annars búnaðar, til að sækja mjög djúpt. Staðreyndin er sú, herra forseti, að við sjáum oft svokallaða smábáta sækja lengra til hafs en aðra sem sýnast nokkru stærri og falla undir aðrar reglur. Það eitt hefur sagt mér, herra forseti, að búnaður smábátanna sem menn hafa fjárfest í í krafti sóknarstýrikerfis og á grundvelli þess hefur gert þá mun öflugri skip en sum sem eru stærri að tonnatölu eða mælingu.

Mér sýnist það mikið álitaefni hvernig við náum þessum árangri sem ég hef nefnt. En ég tel alveg nauðsynlegt að menn búi við almennt stjórnkerfi í fiskveiðum sem geri sjómönnum á Íslandsmiðum jafnt undir höfði. Eins og kerfið er í dag er svo ekki, því miður. Þess vegna er alveg ljóst að við eigum eftir að fást oftar en nú við ákvæði til að færa það til betri vegar. Þess vegna getum við allir verið vissir um að við eigum eftir að fást við frv. af þessu tagi oft í framtíðinni líkt og við höfum undanfarinn áratug aftur og aftur fjallað um ýmsa þætti í lagabálknum um stjórnkerfi fiskveiða.

Ég vil svo, herra forseti, láta lokið þessu máli mínu. Ég vona að við berum gæfu til að móta í framtíðinni stjórnkerfi sem geri sjómönnum á Íslandsmiðum jafnt undir höfði, gefi þeim sambærileg réttindi og sæmilega sambærilegar skyldur. Þá verðum við betur staddir en við erum nú.