Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 13:49:29 (2532)

1997-12-17 13:49:29# 122. lþ. 46.3 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, MS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[13:49]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Með lögfestingu þessa ákvæðis er verið að gera grundvallarbreytingar á stjórn fiskveiða er varðar smábáta sem gerðir eru út með þorskaflahámarki. Með þessu er verið að heimila framsal á aflaheimildum smábáta, bæði varanlegt framsal heimilda og einnig svonefnda leigu á heimildum innan fiskveiðiársins. Ég tel að núverandi þorskaflahámarkskerfi hafi gengið vel upp. Útgerðarmenn eru almennt ánægðir með það fyrirkomulag og því erfitt að sjá rök fyrir þessum breytingum. Ég minni á að talsmenn smábátaútgerðarinnar hafa ítrekað gagnrýnt það sem þeir kalla kvótabrask í aflamarkskerfinu en með þessum breytingum er verið að taka upp sama fyrirkomulag hjá smábátaútgerðinni og það að beiðni Landssambands smábátaeigenda. Ég tel að áhrif þessara breytinga verði þau að smábátaútgerð muni dragast verulega saman víða um landið, m.a. á stöðum þar sem smábátaútgerð hefur borið uppi atvinnulíf. Jafnframt er ég þeirrar skoðunar að þessi breyting sé skref í þá átt að smábátar á þorskaflahámarki verði felldir undir aflamarkið.

Herra forseti. Þetta er vond breyting sem ég vil ekki bera ábyrgð á og greiði atkvæði gegn ákvæðinu.