Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 13:54:57 (2535)

1997-12-17 13:54:57# 122. lþ. 46.3 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[13:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi málsgrein felur í sér að sóknardögum báta sem stunda veiðar með handfærum eingöngu eða handfærum og línu, er fjölgað nokkuð á þessu fiskveiðiári umfram það sem ella stefndi í eða í 40 annars vegar og 32 daga hins vegar í stað 26 og 20 sem orðið hefði niðurstaðan miðað við afla á síðasta fiskveiðiári. Við styðjum að sjálfsögðu þessa rýmkun sem gengur að vísu mjög skammt en eftir sem áður mun þessum hópi reynast erfitt að skapa sér afkomu og tilverugrundvöll á ekki fleiri dögum en þarna um ræðir auk þess sem það má ljóst vera að þessar kringumstæður í sókn bátanna skapa mikla og margvíslega erfiðleika og jafnvel slysahættu sem erfitt er að forsvara. Hitt er öllu alvarlegra að hér er eingöngu gengið frá þessu ákvæði til bráðbirgða í eitt ár, þ.e. á því fiskveiðiári sem þegar er hafið og þó nokkrir mánuðir liðnir af. Það er óhjákvæmilegt að vekja athygli á þessu um leið og við styðjum þessa rýmkun að sjálfsögðu.