Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:18:09 (2548)

1997-12-17 15:18:09# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:18]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að menn þurfa ekki að hafa lokið stúdentsprófi til að geta hafið nám í háskóla. Það kemur fram í 1. mgr. 6. gr. að unnt er að hafa lokið öðru sambærilegu námi en því sem lýkur með stúdentsprófi. Þar stendur einnig að menn geti búið yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati viðkomandi háskóla. Það er því lagt í hendur viðkomandi háskóla að meta það, en það er alveg ljóst að háskólar geta ekki sett það sem skilyrði að menn hafi lokið stúdentsprófi.

Síðan er í 2. mgr. tekið fram að skólarnir eigi þó að gera lágmarkskröfur varðandi inntöku nemenda. Þar hafa menn sem viðmiðun, alþjóðlega viðmiðun, eins og fram kemur í greininni. Það er sú viðmiðun sem á að fara eftir. Ekki er hægt að fara nánar út í það því það er bundið við einstakar greinar. Og ef menn telja að háskólar séu að gera of litlar kröfur til nemenda sinna, er hægt að bera það saman við það sem viðgengst í erlendum háskólum í viðkomandi greinum þannig að þetta er eins skýrt og það getur verið, finnst mér, miðað við að menn eru yfirleitt að opna þetta. Það er náttúrlega mjög varasamt, má segja, í fyrsta lagi: Er rétt að opna það á þann hátt sem gert er? Ég tel að úr því að sú leið er farin, sem ég tel að sé skynsamlegt eins og hv. þm. vék sjálfur að, þá þarf að setja öryggisnet og það er gert í 2. mgr. eins og þar segir.