Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 16:25:42 (2568)

1997-12-17 16:25:42# 122. lþ. 46.11 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. meiri hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[16:25]

Frsm. meiri hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þetta atriði ná lögin ekki utan um þetta mál. Hér er kveðið á um að ákvörðun bóta er skilgreind á ákveðinn hátt og það hvernig beri að telja tekjur, reiknað út frá tekjum og eignum, en síðan er kveðið á um að félmrh. setur að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, ákvæði í reglugerð um útreikning og fjárhæð bóta, þar á meðal um grunnfjárhæð bóta. Síðan er skýrt í frv. í athugasemdum við ákvæði til bráðabirgða hvernig þær reglur eru núna og reiknað er með því að þær verði með sama hætti á næsta ári. Við getum deilt um það hvort grunnfjárhæðin sé nógu há eða hvort skerðing byrjar of snemma en það hlýtur að vera á valdi sveitarfélaganna hvernig þau haga þessum málum og ég held við hljótum að verða að treysta því að þau sjái til þess að kjör fólks versni ekki. Nú er afar misjafnt hver fjöldi leiguíbúða á vegum sveitarfélaganna er. Sums staðar eru þær mjög fáar. Það kom meðal annars fram að leiguíbúðir á vegum Kópavogsbæjar eru örfáar. Hins vegar kom mjög skýrt fram að það er stefna Reykjavíkurborgar, og við hv. þm. teljumst báðar til stuðningsmanna núverandi meiri hluta, og hljótum að treysta því að staðið verði við þau fyrirheit. Það er því ekki tilgangurinn að kjör þeirra versni sem fá húsaleigubætur eða munu bætast í þann hóp sem eins og ég hef nefnt áður eru oftast þeir sem verst eru settir í samfélaginu. (Forseti hringir.) Það liggja ekki fyrir niðurstöður. Það er mikið verk að fara í gegnum þetta hjá Reykjavíkurborg og hvað varðar önnur sveitarfélög á landinu, þá eru þessi mál ... (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu.

(Forseti (GÁS): Nú er tíminn búinn, hv. þm.)