Markaðshlutdeild fyrirtækja

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:12:18 (2580)

1997-12-18 10:12:18# 122. lþ. 47.1 fundur 215. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (áætlunarflug) fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi TIO
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:12]

Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svarið. Svar Flugleiða er mjög í sama dúr og þær upplýsingar sem koma fram í skýrslu samkeppnisráðs um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Markaðshlutdeildin er um 80% og telst því mjög há.

Í svari fyrirtækisins kemur í ljós að ef starfsemi þessa flugfélags sem er á alþjóðlegum markaði yrði skert, þá mundi það hafa mjög skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu þess erlendis og vera á skjön við alþjóðlegt samkeppnisumhverfi eins og þar var komist að orði.

Tilgangurinn með fyrirspurn minni er ekki sá að ýta undir að kreppt verði að fyrirtækjum eins og Flugleiðum sem gegna mjög mikilvægu hlutverki í samgöngumálum þjóðarinnar. Tilgangur fyrirspurnarinnar sá að menn velti því fyrir sér hvort ástæða er til þess að þrengja að stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins sem eiga frá 5--6% af kvótanum. Það vill svo til að þessi fyrirtæki eru líka í samkeppni á alþjóðlegum markaði. Þau eru í samkeppni við sjávarútveg sem ekki þarf að greiða í ríkissjóð eins og íslenskur sjávarútvegur, heldur er hann styrktur. Tilgangur með fyrirspurnarinnar var fyrst og fremst sá að varpa ljósi á það hversu sérkennilegt er að þrengja að íslenskum sjávarútvegi sem á í alþjóðlegri samkeppni á meðan markaðshlutdeild stærstu fyrirtækjanna er þó ekki meiri.