Markaðshlutdeild fyrirtækja

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:23:31 (2585)

1997-12-18 10:23:31# 122. lþ. 47.2 fundur 216. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (sjóflutningar) fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi TIO
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:23]

Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir ítarleg svör. Þau voru öllu ítarlegri heldur en fyrirspurnin gaf tilefni til. Ég læt þess sérstaklega getið vegna þess að í svari eins fyrirtækisins kom fram sú skoðun að um sjóflutningana giltu allt önnur lögmál en í sjávarútveginum vegna þess sjávarútvegurinn væri lokuð grein og þar kæmust ekki allir að. Því miður er þetta misskilningur. Hver sem er getur fjárfest í sjávarútvegi að því tilskildu að hann sé reiðubúinn að leggja fram það fjármagn til skipakaupa, útgerðar og kvótakaupa. Þar með þurfa menn að vera reiðubúnir til að taka þá áhættu sem fólgin er í að kaupa kvóta. Því fylgir veruleg áhætta eins og allir vita. Þetta getur Eimskip gert, eins og hver annar, þannig að Eimskipafélaginu er fullkomlega frjálst að fjárfesta í sjávarútvegi.

Eins og aðrar fyrirspurnir í þessum dúr hefur þessi fyrirspurn varpað ljósi á hversu lítil fákeppni er í sjávarútveginum og ekki nein efni til þess að þrengja að stærstu fyrirtækjunum í sjávarútvegi sem eiga eins og ég tók fram áðan í alþjóðlegri samkeppni þar sem þau standa verr en önnur fyrirtæki að því leyti til að þau njóta ekki opinberra styrkja. Því tel ég mjög brýnt að menn séu ekki að sauma að þessum fyrirtækjum umfram það sem almenn samkeppnislög segja til um.