Svör við fyrirspurn

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 11:02:04 (2600)

1997-12-18 11:02:04# 122. lþ. 48.92 fundur 149#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[11:02]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna svars frá hæstv. heilbrrh. við fyrirspurn á þskj. 586 sem mér var að berast og var verið að dreifa í þingsalnum. Fyrirspurn mín var um greiðslur vasapeninga til vistmanna á stofnunum og geri ég ekki athugasemdir við fyrstu tvo liðina en svörin við þriðju spurningunni eru svo dæmalaus að ég á ekki orð yfir það. Það lýsir svo miklum þekkingarskorti á málefninu í ráðuneytinu að ég held að þarna þurfi eitthvað að koma til. Þetta snýst um vasapeninga sem eru greiddir utan stofnana eins og þeir eru kallaðir í Tryggingastofnun ríkisins. Greiðslur skv. 5. gr. reglugerðar sem hæstv. þáv. heilbrrh., Guðmundur Bjarnason, gaf út í apríl 1991. Það er heimilt í allt að 15 daga að greiða vistmönnum stofnana tvöfalda sjúkradagpeninga sem eru vasapeningar á meðan þeir fara heim, t.d. um jól eða páska. Í svarinu segir:

,,Vasapeningar eru mjög sjaldan greiddir utan stofnana.``

Greiddir eru svonefndir ,,heim-um-helgar-vasapeningar`` en þeir sárafáu lífeyrisþegar sem fá þá eru taldir með í töflunni hér á undan enda eru þeir fyrst og fremst vistmenn stofnana. Það er að sjálfsögðu réttur vistmanna stofnana þegar þeir fara heim í lengri tíma. Hæstv. ráðherra gat ekki verið viðstaddur þessa athugasemd en ég spyr: Eru menn hættir að greiða fólki uppihaldskostnað eða vasapeninga ef þeir fara heim t.d. um jól eða páska eða í stuttan tíma, skv. 5. gr.? Ég mun svo sannarlega leggja fram aðra skriflega fyrirspurn og vona að ástandið lagist í heilbrrn. hjá hæstv. ráðherra og menn kynni sér þær reglugerðir sem gilda um þennan málaflokk.