Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 11:56:05 (2613)

1997-12-18 11:56:05# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[11:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna þeim áfanga sem næst með þessu frv. þar sem sú grundvallarbreyting er gerð í íslenskum lögum að feður fá sjálfstæðan rétt til tveggja vikna fæðingarorlofs, en tek undir allt sem sagt hefur verið um nauðsyn þess að fram fari heildarendurskoðun á lögum um fæðingarorlof hér á landi, því það hefur komið mjög skýrt fram í máli þeirra sem hafa talað hér á undan mér að þar er víða pottur brotinn.

Herra forseti. Mér hefði þótt eðlilegt að við þessa umræðu hefðu verið viðstaddir bæði hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh. vegna þess að þetta mál varðar báða þá ráðherra, sérstaklega þegar til samanburðar kemur á rétti foreldra til töku fæðingarorlofs. Þar á ég m.a. við rétt feðra hjá hinu opinbera til fæðingarorlofs samkvæmt fréttatilkynningu frá hæstv. fjmrh. Hvorugur ráðherranna er hér viðstaddur, því miður. Þessi mál komu til mikillar umræðu í hæstv. heilbr.- og trn. og voru menn sammála um að brýnt væri að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar. Sérstaklega vil ég taka undir athugasemdir frá fulltrúum ASÍ sem komu á fund nefndarinnar. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir las athugasemdir þeirra og mun ég því ekki endurtaka það mál allt. Engu að síður vil ég minna á að mæðrum hefur verið mismunað í greiðslum í fæðingarorlofi í gegnum tíðina. Mæður sem hafa tekið fæðingarorlof og treyst á greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hafa verið með lægri greiðslur. Nú er þetta að koma fram hjá feðrunum og kemur þá aftur til umræðu og er full ástæða til að benda á það. Það er ekki aðeins feðrum sem nú er mismunað heldur er mismunun mæðranna enn til staðar. Einnig kom fram mjög sérkennilegt dæmi í umfjöllun hæstv. heilbr.- og trn. þegar borinn var saman réttur karla og kvenna í störfum hjá hinu opinbera, þ.e. feðra og mæðra í störfum hjá hinu opinbera, og var þá bent á að félagsmenn Sóknar í störfum hjá ríkinu hefðu mismunandi rétt. Var tekið dæmi af því að Sóknarkarl, faðir, sem starfaði t.d. hjá Ríkisspítölum mundi fá launatengt fæðingarorlof, þ.e. hann mundi halda launum sínum, fá hálf laun fyrir þessar tvær vikur auk þess að halda hálfri yfirvinnu og vaktaálagi o.s.frv., meðan Sóknarkonan, konan hans, móðirin, ætti ekki rétt á að halda launum sínum, hún yrði að taka greiðslur frá almannatryggingunum og fengi þar af leiðandi mun lægri greiðslur í sínu fæðingarorlofi, allt að því helmingi lægri greiðslur en maðurinn hennar sem vinnur sömu störf, t.d. hjá Ríkisspítölunum.

[12:00]

Þetta er auðvitað talandi dæmi um það hversu brýnt er að taka þessi lög til gagngerrar endurskoðunar. Eins og fram kemur í nál. er það samdóma álit allra nefndarmanna að stefnt skuli að því að þessi lög fari í heildarendurskoðun.

Mig langar aðeins að gera að umtalsefni þær brtt. sem nefndin leggur til á þingskjali sem liggur frammi. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ásamt hv. formanni heilbr.- og trn., Össuri Skarphéðinssyni, hefur lagt fram brtt. við 1. umr. Nefndin var sammála því að taka þyrfti á þeim atriðum sem þar komu fram, þ.e. að auka rétt feðra við fjölburafæðingar, við alvarlegan sjúkleika barns eða ef um alvarleg veikindi móður væri að ræða. Tekið er á þessu í brtt. frá nefndinni. Einnig var annað mál mikið til umræðu í nefndinni og það var að móðir hefði áfram forgangsrétt til fyrsta mánaðar í fæðingarorlofi. Þetta hefur oft verið gagnrýnt, en ég tel að þetta sé fyllilega réttlætanlegt, sérstaklega nú þegar faðir getur tekið sinn sjálfstæða rétt tvær vikur af þessum fyrsta mánuði. Það er því fyllilega réttlætanlegt og eðlilegt að móður sé tryggður þessi fyrsti mánuður áfram þannig að faðir geti ekki tekið þann mánuð sem afleiddan rétt móðurinnar.

Annað sem breyttist í meðförum nefndarinnar er ákvæði til bráðabirgða um að þeir feður geti nýtt sér réttinn samkvæmt þessum lögum eftir að lögin taka gildi, þ.e. feður barna sem fæddust eða fæðast nú í desember --- eða fá að koma heim --- og falla innan þeirra marka sem sett eru samkvæmt þessum lögum. Þetta er í samræmi við bráðabirgðaákvæði sem sett var í lög eða lagabreytingu sem nefndin fjallaði um og varð að lögum um rétt fjölburaforeldra. Þetta er fullkomlega eðlilegt og ég fagna því að þetta skuli hafa verið sett í lagatextann.

Ég ætla ekki að endurtaka allt sem kom fram hjá þeim sem töluðu á undan mér um það hve þetta kerfi er ósamkvæmt sjálfu sér, hvernig mönnum er mismunað eftir því hvort þeir eru opinberir starfsmenn eða starfa hjá einkaaðilum. Hér var til umræðu skilyrði um hjúskap eða skráða óvígða sambúð. Í fréttatilkynningu frá hæstv. fjmrh. um rétt karla er starfa hjá hinu opinbera kemur fram að þar er ekki skilyrði að feður þurfi að vera í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð til að eiga rétt á tveggja vikna fæðingarorlofi og er það í ósamræmi við þau lög sem er verið að setja og snúa að almannatryggingunum. Það er mikilvægt að samræmi sé í þessum hlutum. Þetta er orðið það flókið kerfi og flóknar reglur að menn eiga fullt í fangi með að kynna sér réttinn og var það nefnt í umræðum í nefndinni að greinilegt væri að ef faðir ætti von á barni þá væri um að gera að drífa sig í starf hjá hinu opinbera þar sem hann gæti þá átt réttinn hvort sem hann væri í sambúð með móður eða ekki og héldi hálfum launum í því leyfi. Ég leyfi mér að efast um að lögin og framkvæmd þeirra og rétturinn til fæðingarorlofs, þessi mismunandi réttur, bæði mæðra og feðra, standist jafnræðisreglu og kom það einmitt fram í umræðum í nefndinni að þetta væri án efa brot á þeirri reglu. Ég leyfi mér að fullyrða eða tel mjög líklegt að kærur muni koma fram vegna þessara réttinda til töku fæðingarorlofs og greiðslna þar. Við verðum að taka á þessu máli. Réttur til fæðingarorlofs er lakari hér en annars staðar í Evrópu, nema e.t.v. í Bretlandi, bæði hvað varðar lengd fæðingarorlofs mæðra og feðra og einnig upphæðir.

Herra forseti. Það er orðið mjög brýnt að taka á fæðingarorlofsmálunum. Eins og komið hefur fram í umræðunni liggja fyrir þingmál um rétt til töku fæðingarorlofs þar sem tekið er á þessum málum sem hér eru til umræðu og hafa einnig verið á fyrri þingum. Ég tel eðlilegt að ef hæstv. ráðherra fer í það að láta gera heildarendurskoðun á þessum lögum, þá komi að því starfi fólk sem víðast að og tekið verði tillit til þeirra mála sem hér liggja fyrir nú þegar um rétt til töku fæðingarorlofs.