Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 12:07:35 (2614)

1997-12-18 12:07:35# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[12:07]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. heilbrrh. hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beint til mín spurningum sem varða það mál sem við erum að ræða.

Í fyrsta lagi spurði hún mig um hvort feður sem eru bankamenn fengju sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs samkvæmt þessu frv. og svarið er já.

Í öðru lagi spurði hún hvort nefndin hefði beint því til fjmrn. að breyta þeim reglum sem gilda um þá opinberu starfsmenn sem eru feður eða verða feður, að taka upp sams konar breytingar og við höfum lagt til, þ.e. sem lúta að því að ef um er að ræða ákveðnar aðstæður fái feður tvöfaldan rétt sinn, þ.e. mánuð í stað tveggja vikna, sömuleiðis fái þeir tvær vikur fyrir hvert barn sem er umfram eitt. Því er til að svara að eins og kom fram í framsögu minni tókum við enga sjálfstæða ákvörðun um að beina því til fjmrn. Það komu hins vegar upp umræður í nefndinni sem vörðuðu önnur atriði sem menn töldu nauðsynlegt að samræma á milli þeirra reglna og frv., sem við erum að ræða, og menn töldu eðlilegt varðandi það tiltekna atriði að fjmrh. breytti þeim reglum. Ég tel eðlilegt að hæstv. fjmrh. breyti reglum sínum í samræmi við anda þessara laga og ég geri raunar ráð fyrir því. Hann hefur sýnt nokkurt frumkvæði í þessum efnum. Ég hygg að hann eins og hæstv. heilbrrh. hafi ekki einvörðungu hugsað út í þetta tiltekna atriði. Ég rifja það upp að þegar þessi hugmynd kom fram í umræðunni um aukinn rétt feðra við sérstakar aðstæður þá tók hæstv. heilbrrh. því mjög vel og ég vænti þess að sá skilningur nái yfir ríkisstjórnina alla og þess vegna verði þetta frv. til þess að hæstv. fjmrh. taki sig til og breyti reglunum líka í samræmi við það. Að öðru leyti hefur það komið fram í umræðum sem varðar auðvitað þetta atriði að löggjöfin um fæðingarorlof er meingölluð. Allir þeir sem komu til fundar við nefndina lýstu þeirri skoðun sinni að nauðsynlegt væri að endurskoða hana í heild. Í þessari umræðu og í umfjöllun nefndarinnar var bent á fjölmörg dæmi sem sýndu misræmi og ekki er hægt annað en að taka undir með þeim sem telja að mjög brýnt sé orðið að þessi endurskoðun fari fram.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði mig hvort þessi tilhögun kynni að einhverju leyti að brjóta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég tel að svo sé ekki. Hér er ekki verið að skerða rétt neins heldur er verið að auka réttindi annarra. Ég tel það einsýnt að þetta sé ekki brot á jafnræðisreglunni. Það kynni hins vegar að vera að einhverjir hópar gætu í krafti jafnræðisreglunnar sótt fram til svolítilla ávinninga á þeim grunni sem þessi löggjöf væntanlega veitir.