Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 12:40:27 (2619)

1997-12-18 12:40:27# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[12:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Hún er orðin býsna löng, ótrúlega löng um mál sem allir eru sammála um. Hér er um enn eitt stjfrv. að ræða til að bæta velferðina í þjóðfélaginu og ég fagna afgreiðslu nefndarinnar á málinu. Ég tel það mikilvægt skref sem hér er verið að taka og í samræmi við þá ályktun sem við afgreiddum í fyrravor, um mótun opinberrar fjölskyldustefnu, og í ágætu framhaldi af þeirri stefnumörkun sem þar var gerð. Menn hafa verið með vangaveltur um hvað gæti verið öðruvísi í þessu máli. Mér finnst það mjög eðlileg niðurstaða sem hér er tekin að einungis er um að ræða feður sem eru í hjónabandi eða sambúð, ekki einhverja menn úti í bæ sem ekki eru í sambúð með móðurinni. Mér fyndist það ekki koma til greina að fara að veita þeim eitthvert sérstakt fæðingarorlof fyrir það að vera allt í einu orðnir feður. Ég tel að hér sé um að ræða mikilvægt skref til jafnréttis og að því leyti fagna ég því líka.

Í ríkisstjórninni er til meðferðar tillaga frá mér um að fullgilda foreldraorlof, sem jafnframt er veruleg réttarbót og í samræmi við mótun hinnar opinberu fjölskyldustefnu. Menn hafa verið að tala um ósamræmi milli reglugerðarinnar um opinbera starfsmenn og þessa frv. Það er vissulega nokkur mismunur fyrir hendi. Ég tel að ráðið eigi að vera það að ganga frá þessu lagafrv. eins og það er, og síðan kemur opinberi markaðurinn á eftir. Það sé hið rétta vinnulag.

Það hefur verið nokkuð athyglisvert að fylgjast með þessari umræðu að því leyti til að konur hafa verið í miklum meiri hluta við umræðu málsins og þó er verið að ræða um aukin réttindi karla (Gripið fram í: Þetta er rangt hjá hæstv. ráðherra.). Ég hef fylgst með því, hv. þm., að hér sátu áðan níu konur í salnum og fjórir karlar. (Gripið fram í.) Það er að vísu rétt að þetta hefur snúist við eftir að hv. 8. þm. Reykv. gekk í salinn, enda mikið karlmenni. Menn hafa saknað hæstv. heilbrrh. frá þessari umræðu og fundið nokkuð að því. Ekki ætla ég að mæla því bót að ráðherrar séu ekki viðstaddir umræður og gegni ekki þingskyldum sínum, en mér finnst nú að hæstv. heilbrrh. sé nokkur vorkunn. Væntanlega hefur hún ekki átt von á miklum pólitískum deilum um þetta mál þegar svo skemmtilega vill til að sá hv. þm. sem fyrst og fremst reynir að bregða fæti fyrir hana og hennar mál, var frsm. málsins, hv. formaður heilbr.- og trn., þannig að mér finnst það kannski afsakanlegt að hæstv. heilbrrh. lét sig hafa það að sinna öðrum störfum meðan þessi umræða fór fram.