Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 13:33:00 (2630)

1997-12-18 13:33:00# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:33]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að hið háa Alþingi ræði þá ótryggu stöðu sem núna er komin upp á sjúkrahúsunum í Reykjavík í kjölfar þess að unglæknar hætta nú unnvörpum störfum. Ástandið hefur þegar leitt til þess að yfirlæknir Slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur hefur í bréfi tilkynnt yfirmönnum sínum að neyðarástand ríki á þessari mikilvægu öryggisdeild Stór-Reykjavíkursvæðisins. Ástandið er litlu betra á sumum bráðadeildum Ríkisspítalanna. Ég nefni sem dæmi að á lyflækningadeild Landspítalans hafa 17 af 20 unglæknum þegar hætt. Þeir sem þekkja til innviða spítalanna vita að ungu læknarnir eru framlínusveitin og sjá um alla móttöku sjúklinga á sjúkrahúsunum. Þeir eru því eins konar stríðslæknar íslenska spítalakerfisins. Í því ljósi hlýtur að vera afar mikilvægt að hæstv. heilbrrh. greini frá því sem hún hlýtur að hafa fyrirskipað til að draga sem mest úr hættu þeirri sem óhjákvæmilega fylgir því er fast að 100 unglæknar eru í þann mund að láta af störfum. Því er brýnt að þingi og þjóð sé greint frá þeim áætlunum sem hún hyggst grípa til svo skaði borgaranna verði sem allra minnstur.

Allt fram á síðustu daga, herra forseti, hafa 150 unglæknar verið að störfum. Af þeim 60 sem voru á Sjúkrahúsi Reykjavíkur er 51 búinn að segja upp og margir hafa þegar hætt störfum. Á Landspítalanum hafa 42 af alls 80 sagt upp störfum. Af þeim eru 28 þegar hættir og á Akureyri hafa nánast allir 10 sagt upp störfum. Hæstv. heilbrrh. mun vafalaust halda því fram hér á eftir að miðlunartillaga sáttasemjara muni að öllum líkindum verða samþykkt og unglæknarnir komi aftur. Hið sorglega í stöðunni er, herra forseti, að litlar líkur eru á að stór hluti þeirra unglækna hafa hætt komi aftur eða dragi uppsagnir sínar til baka. Ef hæstv. heilbrrh. mundi spyrja forráðamenn Landspítalans hvað þeir teldu stóran hluta læknanna koma aftur þá yrði henni sagt að af þeim 42 sem hafi sagt upp séu tveir búnir að draga uppsagnirnar til baka og líklegt sé að fjórir eða fimm aðrir komi aftur. Ástandið er síst betra gagnvart Sjúkrahúsi Reykjavíkur þar sem andstaðan gegn því að snúa aftur er harðari ef eitthvað er.

Herra forseti, unglæknarnir sjá um alla móttöku sjúklinga. Þær deildir sem háðastar eru vinnu þeirra eru bráðadeildirnar sem hafa opna móttöku allan sólarhringinn. Fyrir utan bráðamóttökurnar sjálfar eru það deildir á borð við lyflækningadeildirnar, skurðdeildir, barnadeildir. Mikilvægur hluti læknaliðs kvennadeildanna og geðdeildanna er einnig úr röðum unglækna. Þessar deildir munu vitaskuld geta haldið uppi bráðnauðsynlegri starfsemi með því að kveðja til sérfræðinga frá öðrum deildum en sá liðsauki getur þá ekki haldið áfram fullu starfi á sínum fyrri deildum. Þetta leiðir til þess að biðlistarnir munu lengjast og draga verulega úr þjónustu göngudeildanna. Af þessu leiðir það að mikilvæg þjónusta mun einfaldlega lamast eða leggjast niður. Gerir hæstv. heilbrrh. sér t.d. grein fyrir því að á Landspítalanum muni hjartaþræðingum líklega verða hætt innan örfárra daga vegna þessa ástands? Staðan sem er að skapast birtist gleggst með því að skoða slysamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur og þá skilst líka hvernig svelti spítalans af hálfu ríkisstjórnarinnar fléttast með skelfilegum afleiðingum inn í þá kreppu sem uppsagnir unglæknanna skapa. Vegna niðurskurðar síðustu missira af hálfu hæstv. ríkisstjórnar eru sérfræðingar deildarinnar of fáir nú þegar. Í stað þess að vera sjö til átta þá eru þeir aðeins fimm. Þegar uppsagnir unglæknanna bætast ofan á þetta skilja menn að sjálfsögðu af hverju yfirlæknir slysadeildarinnar hefur í bréfi til yfirmanna sinna formlega tilkynnt að neyðarástand ríki á stofnuninni. Við þessar aðstæður er ljóst, herra forseti, að nauðsynlegt er að kveðja til fleiri sérfræðinga, stofna fleiri sérfræðingsstöður í stað aðstoðar- og deildarlækna sem eru að hverfa burtu. Þar með kallar þetta enn á aukinn kostnað. Jafnframt blasir við að Sjúkrahús Reykjavíkur stendur nú andspænis enn meiri sparnaði en það hefur nokkru sinni horfst í augu við, andspænis enn meiri vanda en nokkru sinni hefur verið á dagskrá stofnunarinnar. Hið sama gildir raunar einnig um Ríkisspítalana. Hvorn stóru spítalanna um sig vantar 700--800 milljónir aðeins til að geta rekið sig með eðlilegum hætti á næsta ári.

Í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem nú er uppi vegna uppsagna unglækna spyr ég hæstv. heilbrrh. eftirfarandi spurninga: Hvernig hyggst hún bregðast við þessari kreppu? Hvaða neyðarráðstafana hyggst hún grípa til svo öryggi borgaranna verði tryggt? Ég spyr sérstaklega, í ljósi þess gífurlega niðurskurðar sem er fram undan hjá Sjúkrahúsi Reykjvíkur, mun hún þá tryggja sérstaka fjárveitingu til að hægt verði að manna slysadeildirnar sérfræðingum og aflétta því neyðarástandi sem þar hefur skapast?