Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 14:03:00 (2640)

1997-12-18 14:03:00# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[14:03]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Mér nægir ein mínúta til þess að svara útúrsnúningi hv. þm. Tómasar Inga Olrichs. Ég spurði og ég svaraði því að þeir hafa ekki allir sagt upp störfum, það er hluti þeirra. Ég sagði líka að ég héldi að þeir hefðu tilfinningu fyrir því að þeir hefðu skyldum að gegna við þjóðina. Auðvitað má spyrja sig að því í því kröfugerðarsamfélagi sem við búum við þegar það er orðin lenska hjá hálaunahópum þessa þjóðfélags að segja upp og fara og þurfa ekki við neinn að semja. Það fólk sem hefur notið þess að sitja við menntalindir þjóðarinnar hefur skyldur og stærstur hluti þess mun sýna það í verki. En ég orðaði það sem mikilvægast er að við eigum að hleypa fleira ungu fólki, sem hefur gáfur og hæfni, til að fara þessa leið til þess að komast til þjónustustarfa. (TIO: Eru unglæknar hálaunahópur, hv. þm.?). Já, unglæknar eru hálaunahópur. Þeir vinna það með yfirvinnu. Hver eru grunnlaun hv. þingmanna? (Forseti hringir.) Ég spyr. Það þýðir ekkert að tala um grunnlaun en ég veit að það liggur mikil vinna að baki hjá unglæknum en það gerir það líka hjá mörgum öðrum hópum á Íslandi, hæstv. forseti.