Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 15:39:21 (2672)

1997-12-18 15:39:21# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[15:39]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel rökrétt ef t.d. ungt fólk býr í íbúð þar sem er þung leiga, í sveitarfélagi sem greiðir ekki húsaleigubætur, hvort sem það er í Kópavogi eða annars staðar að það leiti fyrir sér hvort það getur fengið íbúð á kannski svipaðri leigu þar sem eru húsaleigubætur. Þannig vill til að um slíka möguleika er að ræða, reyndar bæði norðan og sunnan við Kópavog, þannig að það er ekki bara verið að tala um Reykjavík. Hins vegar geri ég fastlega ráð fyrir að mikil hringrás sé í leiguhúsnæði. Einn fer út úr þessu leiguhúsnæði og leitar fyrir sér annars staðar, annar kemur í það húsnæði sem þessi fór úr, og einhver tími líður áður en hann fer að hugsa um það að hann geti kannski fengið þetta eitthvað ódýrara. Enn annar velur staðinn og tekur þessa leigu, hefur kannski þær tekjur, hefur gert ráð fyrir því að fá ekki húsaleigubætur, eða að aðstæður hans eru þannig að skerðingin er svo mikil að þetta virkar ekki fyrir hann. Þess vegna er ég ekki viss um að það standi svo mikið húsnæði autt í Kópavogi enda eins og ég hef þegar lýst ekki mikið um leiguhúsnæði þar nema á almennum markaði. Mér sýnist á þeim upplýsingum sem við fengum í félmn. að húsnæði hafi ekki hækkað í Reykjavík þrátt fyrir húsaleigubætur. Örlitlar hækkanir voru á síðasta ári og það var rakið til þess að fólk hefur flutt í auknum mæli af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Ég gat þess áðan í ræðu minni um húsaleigubæturnar að börnin eru tekin inn í útreikning bótanna en í skerðingunni eru prósentutölurnar eins, bæði fyrir þann sem er með lægri bætur af því hann fékk ekki uppbót á bæturnar út á barnahópinn, og líka fyrir þann sem er með barnahópinn og lendir í hærri tekjum. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu, við gerum ekki tillögu um breytingar og þar með er ég að fallast á þetta, enda hef ég lýst því yfir í þessum ræðustól.