Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 15:42:07 (2674)

1997-12-18 15:42:07# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[15:42]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Við gætum rætt lengi um það hvað ég tel að fólk þurfi að hafa til að lifa af en það veit heilög hamingjan að þau laun sem eru greidd í landinu eru slík að afskaplega margir þurfa að lifa af innan við einni og hálfri millj. króna í árstekjur eins og við höfum fengið útreikninga um í félmn. þegar við báðum um upplýsingar um tekjur þeirra sem fengu húsaleigubætur. Það eru ansi stórir hópar sem eru á lágum launum í landinu. Við höfum rætt svo oft um laun að ég get alveg tekið undir að það væri engin goðgá þótt enginn þyrfti að hafa minna en svona 250 þús. kr. miðað við þau útgjöld og þá neyslu sem þekkist í landi okkar. Þetta snýst ekki um hvað ég telji að fólk eigi að hafa í tekjur. Þetta snýst um eftir hvaða kerfi við ætlum að reyna að reikna út húsaleigubætur. Ég er búin að reyna að svara því til. Ég býst við að það hafi þótt of flókið að taka skerðinguna líka miðað við útreikninga á börnum. Vel má vera að við í félmn. hefðum átt að fara í ólíka útreikninga á því hvernig sé best að hafa bæði upphækkun bótanna miðað við fjölskyldustærð og síðan skerðinguna. Við gerðum það ekki. Fallist var á að halda sig við óbreytt fyrirkomulag og ég stend að því.