Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 15:57:30 (2677)

1997-12-18 15:57:30# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[15:57]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég finn ekki nokkurn skapaðan hlut í þessu frv. sem knýr sveitarfélögin til að hækka leiguna, alls ekki. Skipulagsbreyting sem gerð er eða á að gera í Reykjavík á leiguhúsnæði borgarinnar gengur út á að borgaríbúðirnar verði, þegar farið er að greiða húsaleigubætur, leigðar á einhverju sem kallað er kostnaðarverð, þ.e. ég held að hugmyndin sé sú að rekstur þeirra standi undir sér. Hins vegar er mikið af þessu húsnæði þegar niðurgreitt, þannig að það er alrangt að tala um markaðsleigu. Setjum nú svo að sveitarfélag einhverra svíðinga færi að okra á leigjendum sínum þannig að þeir gætu ekki séð sér farborða jafnvel þótt þeir fengju húsaleigubætur, þá minni ég á að sveitarfélagið hefur framfærsluskyldu ef allt um þrýtur.