Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 15:58:59 (2678)

1997-12-18 15:58:59# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[15:58]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. var að staðfesta það sem ég hélt fram, að gert er ráð fyrir því að sveitarfélögin hækki húsaleiguna. Og hvers vegna er gert ráð fyrir því? Vegna þess að bæta á efnahag leigjenda með því að færa þeim húsaleigubætur. Og hver er þá niðurstaðan? Það er verið að færa peninga ofan í sveitarsjóði. Það er fyrst og fremst það velferðarkerfi sem hæstv. félmrh. virðist bera fyrir brjósti. Hann leggur ekki á sig að víkja að því einu orði í sínu máli að markmiðið sé að ábatinn af húsaleigubótunum verði til að bæta efnahag leigjendanna. Það er ekki markmiðið. Og mig undrar það, herra forseti, að mál af þessu tagi skuli vera svona fram sett. Mig undrar það stórlega að gert skuli vera ráð fyrir því að ábatinn sem leigjandinn fær verði jafnharðan af honum tekinn. Ég hélt að menn ætluðu að bæta efnahagslega stöðu leigjandans.