Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 16:00:43 (2679)

1997-12-18 16:00:43# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[16:00]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að ég þyrfti ekki að taka það fram að markmiðið er auðvitað að bæta efnahag leigjenda bæði á frjálsum markaði og eins í íbúðum í eigu sveitarfélaga. Ég held við ættum ekkert að vera að deila um það. Félagsbústaðir í Reykjavík eru ekki stofnaðir til að okra á leigjendum. Ég hef aflað mér upplýsinga um það. Þeir eru ekki stofnaðir til að mergsjúga leigjendur hjá borginni. Þeir eru stofnaðir til að gera kerfið skilvirkara og hagkvæmara. Sem betur fer er fjöldinn allur af fólki sem býr í leiguíbúðum borgarinnar orðinn ágætlega settur efnalega. Ég hef heyrt dæmi um allmarga sem eru prýðilega settir efnalega, guði sé lof, með háar tekjur. Það er eðlilegra að þeir verði á almennum markaði og frekar reynt að halda niðurgreiðslunni til þeirra sem eiga við efnahagsörðugleika að stríða.

Að endingu þetta: Vandamálið í mínum huga er ekki sveitarfélögin sem hafa sinnt skyldum sínum með leiguhúsnæði. Vandamálið er sveitarfélög sem reyna að verja sig fyrir því að fá leiguhúsnæði í sveitarfélagið og þess finnast því miður dæmi á höfuðborgarsvæðinu.