Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 16:37:20 (2683)

1997-12-18 16:37:20# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. meiri hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[16:37]

Frsm. meiri hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í 14. gr. segir: ,,Að fella niður greiðslu bóta eða stöðva bótagreiðslur.`` Það getur verið tímabundið, það getur verið um tímabundna stöðvun að ræða meðan viðkomandi félagsmálanefnd er að átta sig á því hvað þarna liggur að baki, í hvað hafa bæturnar farið, hvers vegna er leigjandinn lentur í vanskilum og það þarf að taka á málunum. Að mínum dómi er fullkomlega óeðlilegt að bæturnar renni áfram til einhvers einstaklings sem stendur ekki í skilum eða ver bótunum í eitthvað annað. Menn hljóta að verða að hafa lagalega heimild til að grípa þarna inn í og ég trúi því ekki að sveitarfélögin fari að misnota þetta, þau hafa það ríkar skyldur gagnvart íbúum sveitarfélags síns.

Hvað varðar fyrra atriðið, um kjararýrnun er ég auðvitað sammála hv. þm. hvað það varðar. Auðvitað má ekki gerast að breytingarnar verði til að rýra kjör leigjenda og ég vona að svo verði ekki. Við megum ekki gleyma því að húsaleigubæturnar hafa komið mjög mörgum til góða frá því þær voru teknar upp. Verið er að breyta lögunum á þann hátt að nú ná þær til miklu fleiri, en ef sveitarfélögin taka upp raunleigu og greiða síðan leiguna niður gegnum húsnæðisbæturnar, þá getur orðið einhver mismunur. Það verður að koma í ljós hvernig það verður og hvernig hægt er að taka á því í framhaldinu. (Gripið fram í.) Við verðum að sjá hverju fram vindur en ég er hjartanlega sammála þingmanninum hvað þetta varðar að þetta er ákveðið áhyggjuefni.