Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 16:41:52 (2685)

1997-12-18 16:41:52# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. minni hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[16:41]

Frsm. minni hluta félmn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að þetta væri réttindalöggjöf, hún veitti fólki rétt til húsaleigubóta og þar af leiðandi væri ekki rétt að sveitarfélagið hefði heimild til að grípa inn í dæmið ef menn væru í vanskilum. En hvað segir hv. þm. um það að fólk sem er með stopular tekjur, ógæfufólk, oft í einhverri fíkn eða drykkjusýki, sem býr í herbergi með aðgang að baði og eldhúsi, sé svipt rétti sínum? Það fær engar bætur. Það hefur ekki efni á að leigja heila íbúð og hvernig finnst hv. þm., sem ber hag smælingjans fyrir brjósti, eins og kannski fleiri, þessar skerðingar á réttindum? Að fólk fái ekki bætur ef það hefur ekki efni á að leigja heila íbúð?

Þá er annað atriði sem ég held að komi inn á það vandamál sem verið var velta upp áðan, vandamálið hjá félagsmálastofnunum sveitarfélaganna og leiguíbúðum þeirra. Telur hv. þm., sem skrifaði upp á þetta nefndarálit, eðlilegt að fólk með 125 þús. kr., einstaklingur með 125 þús. kr. á mánuði, fái nákvæmlega sömu húsaleigubætur og maður með 60 þús. kr. og sá fær nákvæmlega sömu húsaleigubætur og maður sem hefur engar tekjur? Þarna kristallast vandinn. Vandinn er þarna. Ég tel að maður sem er með 125 þús. kr. bara fyrir sjálfan sig sé oftryggður en sá sem er með 60 þús. kr. á mánuði sé ekki vel tryggður með þessu kerfi. Þarna er vandinn.