Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:28:43 (2692)

1997-12-18 17:28:43# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:28]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. segir, og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni, að enginn veit hvernig framkvæmdin á húsaleigubótakerfinu verður eftir að þetta er komið í hendurnar á sveitarfélögunum og þar liggja áhyggjur margra í þessu máli. Þetta á eftir að sýna sig. Ég hygg að við munum taka aðra umræðu um húsaleigubótakerfið eftir áramótin, sérstaklega ef hæstv. ráðherra verður við ósk minni um að leggja fram skýrslu um framkvæmd á húsaleigubótakerfinu.

En af því hér eru nefndar 200 millj. kr. sem hafa farið á undanförnum tveim árum, hvort árið um sig, til húsaleigubóta, þá hygg ég að skýringin á því sé fyrst og fremst sú að kannski hafa ekki allir vitað um þennan rétt sinn og í annan stað var kerfið þannig að þetta var valkvætt fyrir sveitarfélögin. Þegar kerfið fór af stað var sú sem hér stendur í stól félmrh. og þá var samið við ríkið um 400 millj. kr. framlag til þessa málaflokks og það má auðvitað ekki vera neitt minna núna þegar við erum að víkka út kerfið og fara út í þessa kerfisbreytingu sem sveitarfélögin fara væntanlega í.