Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:30:06 (2693)

1997-12-18 17:30:06# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. meiri hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:30]

Frsm. meiri hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. beindi til mín spurningum. Það er fyrst um þann hóp sem fellur út, fólk sem er í félagslegu húsnæði og mun ekki fá húsaleigubætur vegna of hárra tekna. Í máli fulltrúa Reykjavíkurborgar kom fram að verið væri að skoða hvert einasta dæmi. Það hlýtur að þýða að menn hljóti að vega og meta stöðu þeirra sem þarna um ræðir. Menn hljóta að skoða þennan hóp sem hefur þó þetta háar tekjur að þeir falla fyrir utan kerfið og kemur þar kannski að þeirri umræðu sem hefur staðið í dag. Hvað er að vera tekjulágur? Hvar eiga mörkin að vera? Þess eru dæmi að fólk sem fengið hefur leiguíbúðir, t.d. hjá borginni, hefur bætt stöðu sína verulega en situr eftir sem áður í íbúðunum. Þetta hlýtur að vera dæmi sem borgin er að skoða þó ég sé ekki þar með að segja að þar sé mikið um fólk sem ekki ætti að vera þar. Ég þekki það ekki. Þá vil ég líka benda á, vegna þess að hv. þm. er að óska eftir að fljótlega verði gerð grein fyrir stöðu þessara mála, að í rauninni er gert ráð fyrir því í þessum lögum að sveitarfélögin fái aðlögunartíma og ekki er gert ráð fyrir því að þau setji reglur sínar fyrr en 1. nóv. á næsta ári og þá fyrir árið 1999. Þangað til verður hugsanlega miðað við það gólf sem verið hefur í gildi hingað til. Það getur dregist að við fáum raunverulega mynd af því hvernig fyrirkomulagið verður hjá einstaka sveitarfélögum. Þau fá þennan aðlögunartíma og þurfa að skoða stöðu sína og hvað þau gera í þessum málum en ég vil ítreka og minna á að það er samkomulag um ákveðna lágmarkstölu sem verður væntanlega sett í reglugerð í samkomulagi félmrh. og sveitarfélaganna en síðan hafa sveitarfélögin að sjálfsögðu heimild til að greiða hærri bætur, bæta ofan á ef þau telja þörf á því og það er mjög mikilvægt atriði.