Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:45:03 (2697)

1997-12-18 17:45:03# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:45]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal er einhver talna\-glöggasti maður þingsins og kemur með dæmi í hverju máli sem menn efast ekkert um að séu rétt útreiknuð en spurningin er alltaf sú hvort forsendurnar séu sanngjarnar. Mér finnst afskaplega varasamt að blanda námsfólki inn í þetta með þessum hætti og telja lán sem fólk tekur til að framfleyta sér á námstíma sem tekjur. Við þekkjum örugglega báðir, herra forseti, að fólk sem er í löngu námi safnar upp milljónaskuldum sem það er að greiða niður áratugum saman og gerir mörgum námsmanninum erfitt að afla sér húsnæðis vegna þess hve skuldir þeirra eru orðnar miklar. Þetta hefur margoft verið tekið fyrir í þinginu og ég man ekki til þess, og vænti þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal leiðrétti mig þá, að hann hafi greitt atkvæði gegn því að leiðrétta kjör námsmanna á þessu þingi sem voru talin það lök að nauðsynlegt væri að bæta hag þeirra með einhverju móti af hálfu þingsins. Ég mundi segja að í hans dæmi værum við einvörðungu að tala um 70 þús. kr. í tekjur en ekki 170 þús. kr. tekjur. Ég held við séum að drepa málinu dálítið á dreif með því að taka svona dæmi því að þeir sem í rauninni fara frá þessu borði með skertan hlut eru þeir sem eru í einstaklingsherbergjum og fá ekki neitt út úr húsaleigubótakerfinu og sitja eftir með að þurfa að vera á hnjánum fyrir framan Félagsmálstofnun til að geta átt fyrir leigunni meðan öðrum er hjálpað. Flestallir aðrir fá einhverjar úrbætur nema þeir sem hafa átt sérstaklega erfitt í þjóðfélaginu og þurfa að hírast í einu herbergi. Það eru þeir sem við eigum að beina sjónum okkar að.