Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:48:58 (2699)

1997-12-18 17:48:58# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:48]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir fyrirvara mínum um þetta ákvæði í frv. um að einstaklingsherbergi komi ekki til greina í húsaleigubótakerfinu og hef gert hæstv. félmrh. grein fyrir afstöðu minni í því máli og að ég muni beita mér fyrir því að þessu verði breytt. Jafnframt hef ég sagt að ég muni greiða frv. atkvæði mitt með þessum skýringum.

Mig langaði til að spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal að því hvort hann geri ráð fyrir að skýrsla Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar sé í raun röng þar sem sagt er að 79% þeirra sem þiggja bætur séu með tekjur undir 1,5 millj. kr. á ári. Þar af eru 50% með tekjur frá 700 þús. upp í 1,5 millj. á ári, 25,7% eru með 700 þús. kr. og minna og 3% af þessum hópi eru ekki með neinar tekjur. Hv. þm. gerir þá ráð fyrir að þessar tölur séu í raun rangar og að vantaldar séu tekjur sem hv. þm. telur að ættu að vera þar inni eins og frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, barnabætur og meðlög.