Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:50:43 (2700)

1997-12-18 17:50:43# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. minni hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:50]

Frsm. minni hluta félmn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að benda á þennan punkt. Þetta er einmitt það sem ég gleymdi áðan en tölurnar frá Félagsmálastofnun eru nefnilega hárréttar. Þær eru hárréttar eins og þær eru en menn þurfa að kunna að lesa þær. Þegar þar stendur að einhver sé með núlltekjur, eða lágar tekjur, er það einmitt námsmaðurinn sem ég gat um áðan. Sá var með núll krónur í tekjur. Fólk í þessari skýrslu er með mjög lágar tekjur. Barnabæturnar koma ekki fram sem tekjur, húsaleigubæturnar koma reyndar fram sem tekjur, en lánið frá lánasjóðnum sem er ætlað til framfærslu kemur ekki fram sem tekjur. Þetta fólk kemur inn í skýrslurnar sem tekjulaust eða mjög tekjulágt fólk en hefur í reynd verulega mikla peninga til ráðstöfunar, mjög góða framfærslu og gæti jafnvel keypt fyrir það spariskírteini.