Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 20:37:22 (2708)

1997-12-18 20:37:22# 122. lþ. 48.10 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[20:37]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Við í stjórnarandstöðunni stóðum ekki að afgreiðslu á ákvæði til bráðabirgða II sem hér er síðan lögð brtt. fram við og varðar aðferð við að úthluta varanlega til smábáða á aflamarki undir 10 brúttórúmlestum að stærð þeim 320 lestum sem teknar eru af 500 lesta potti sem Byggðastofnun hefur haft með að gera undanfarin ár.

Ég vil segja um þá brtt. sem lögð er til að ég held að hún færi úthlutunaraðferðirnar til betri vegar en frv. óbreytt eða frv. með þeirri breytingu sem reyndar varð á því, samþykkt við 2. umr., því hér er á ferðinni viðbótarbrtt., ef svo má að orði komast, frá hv. meiri hluta sjútvn. sem felst fyrst og fremst í því að lækka það þak sem til úthlutunar kemur á hvern og einn bát úr tveimur og hálfu tonni í eitt og hálft tonn.

Ég vil lýsa yfir stuðningi við þessa breytingu að því leyti til að ég held að hún sé til bóta frá ákvæðum frv. eins og þau standa nú eftir 2. umr. Sú aðgerð að fella niður 60 tonna þak, eins og upphaflegt ákvæði frv. var að þessu leyti, hefði þýtt að um 40 bátar hefðu bæst við sem hefðu komið til greina við þá úthlutun og eðli málsins samkvæmt allir fengið fullan skammt, ef svo má að orði komast, eða tvær og hálfa lest. Það hefði þýtt að drjúgur hluti eða líklega um þriðjungur af þessum potti hefði farið til báta sem höfðu aflamark upp á 60 lestir og þar fyrir ofan. Með því að lækka þakið eins og hér er lagt til í eina og hálfa lest mun stærri hluti þessa jöfnunarpottar ýtast niður til þeirra báta sem hafa minni aflaheimildir og eru þar af leiðandi að sjálfsögðu í meiri þörf fyrir viðbót. Eftir stendur aðeins ein takmörkun sem undanskilur væntanlega fáeina báta í þessum hópi, þ.e. þá sem landað hafa minna en sex lestum samtals á tveimur síðustu fiskveiðiárum í þorskígildum talið. Um þá takmörkun má sjálfsagt deila, hvort efni standi til að undanskilja einhverja, ef út í það er farið á annað borð að úthluta þessu hlutfallslega til allra sem aflamark hafa. En þó liggur sú hugsun sjálfsagt þar á bak við að ekki sé ástæða til að færa þeim viðbótarveiðiheimildir sem alls ekki hafa nýtt þær á undanförnum árum eða að svo litlu leyti að þeir nái ekki þessu marki.

Ég held að þessi breyting sé til bóta þó að enn megi vissulega deila um slíka aðferðafræði. Það verður sjálfsagt seint fundin sú formúla sem ekki má velta fyrir sér hvort sé sanngjörn þegar í útdeilingu eða skömmtun af þessu tagi er komið á annað borð. Ekki ætla ég að bera á móti því. En hér er þó á ferðinni viðleitni til að koma, þó í litlu sé, til móts við þann hluta smábátaflotans sem lengi hefur legið, ef ekki óbættur hjá garði þá a.m.k. lítt bættur, og þá viðleitni ber að virða.