Fjáröflun til vegagerðar

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 20:42:00 (2709)

1997-12-18 20:42:00# 122. lþ. 48.11 fundur 371. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# frv. 128/1997, Frsm. meiri hluta VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[20:42]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987, með síðari breytingum. Þetta frv. er flutt af hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, Sólveigu Pétursdóttur, Pétri H. Blöndal og Einari Oddi Kristjánssyni auk þess sem hér stendur. Frumvarpið er afar einfalt og er í tveimur greinum, önnur greinin er efnisgrein og hin greinin er gildistökugrein.

En þannig stendur á þessu frv. að í áliti samkeppnisráðs nr. 4/1997 frá 1. september 1997 var til skoðunar erindi Frama, bandalags íslenskra leigubílstjóra, Trausta, félags sendibifreiðastjóra, og Landssambands vörubifreiðastjóra um það hvort tilteknar málsgreinar 4. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, væru í anda samkeppnislaga. Niðurstaða samkeppnisráðs var sú að ákvæðið óbreytt mismuni atvinnubifreiðastjórum og raski innbyrðis samkeppnisstöðu þeirra.

Með frumvarpi þessu er lagt til að í stað þess að einungis þær bifreiðar sem aka gegn gjaldi samkvæmt löggiltum gjaldmæli greiði 30% álag á þungaskattinn skuli greitt árgjald sem er 25% hærra en getið er um í 1. mgr. 4. gr. laganna bæði af framangreindum bifreiðum og sendi- og hópbifreiðum sem nýttar eru í atvinnurekstri. Ákvæðið tekur þó aðeins til þeirra sendibifreiða sem notið hafa innskattsfrádráttar á virðisaukaskatti.

Með þessu, herra forseti, má gera ráð fyrir að komið sé til móts við þá athugasemd sem samkeppnisráð gerði og samkeppnisstaða bifreiðanna jöfnuð hvað þetta snertir.

Hæstv. forseti. Ég vil líka taka fram að þar sem þetta frv. er flutt af meiri hluta efh.- og viðskn. er ekki gerð tillaga um að málið gangi til nefndar heldur verði afgreitt beint til 2. umr.