Fjáröflun til vegagerðar

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 20:44:25 (2710)

1997-12-18 20:44:25# 122. lþ. 48.11 fundur 371. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# frv. 128/1997, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[20:44]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta mál lætur lítið yfir sér en er nokkuð merkilegt þrátt fyrir það. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson rakti nokkuð tildrög málsins en þau byggjast á kæru félaga leigubílstjóra, sendibifreiðastjóra og vörubifreiðastjóra til samkeppnisráðs.

[20:45]

Það fjallar um að þær bifreiðar þurfa allar að greiða sérstakt álag á þungaskatt, þ.e. 30% álag, og það sem félögin sögðu var að fjöldinn allur af bifreiðum er notaður í atvinnuskyni í samkeppni við leigu- og sendibifreiðar. Þessar bifreiðar sem aka ekki samkvæmt gjaldmæli þurfa því ekki að greiða þetta 30% álag. Þetta eru bifreiðar sem eru í eigu margvíslegra fyrirtækja.

Samkeppnisstofnun komst að þeirri niðurstöðu að um mismunun væri að ræða og hana bæri að leiðrétta. Það hefði verið hægt að gera með því að flýta lagasetningu um olíugjald, en henni hefur verið frestað nokkrum sinnum og gat sú leið því ekki komið til, en Samkeppnisstofnun segir í úrskurði sínum, með leyfi forseta:

,,Samkeppnisráð beinir því til fjmrh. að hann hlutist til um að leiðrétta umrædda stöðu mála með breytingu á núgildandi lögum eða með því að flýta gildistöku laga nr. 34/1995.``

Það að flýta gildistöku laganna snýr að olíugjaldinu. Það var því brýnt að breyta núgildandi lögum og efh.- og viðskn. tók málefnið upp á sína arma því að okkur er málið skylt vegna þess að samkeppnislög heyra undir nefndina og voru reyndar unnin og að miklu leyti samin í þeirri ágætu þingnefnd.

Þá upphófust mikil skoðanaskipti innan nefndarinnar um með hvaða hætti við mundum, herra forseti, leiðrétta þetta misræmi, þ.e. að samkeppnisskilyrði væru jöfn. Og þá eru tvær leiðir til. Einfaldast er vitaskuld að fella niður þetta álag, 30% álag, á þær bifreiðar sem úrskurðurinn hljóðar upp á. Það eru 570 sendi- og leigubílstjórar sem greiða þetta sérstaka álag og ef þetta 30% álag hefði verið fellt niður hefði það kostað ríkissjóð 21 millj. Það var kostnaðurinn af réttlætinu. Að fella einfaldlega niður þetta álag sem ágreiningur var um. Ég lagði til í efh.- og viðskn. að þetta væri sú leið sem farin yrði. Lýsti mig jafnframt reiðubúinn til þess ef sameiginlegur vinur okkar hæstv. fjmrh., ríkissjóður, mætti nú ekki sjá af þeirri 21 millj. þá væri ég reiðubúinn til að reyna að athuga hvort ekki væri hægt að finna einhverjar leiðir til að fjármagna það, þó að ekki væri um stóra upphæð að ræða.

Þetta vildi meiri hluti efh.- og viðskn. ekki gera, að leiðrétta samkeppnisstöðuna á þennan einfalda hátt, heldur hækka gjöldin á hinum bifreiðunum sem voru í samkeppni við sendi- og leigubifreiðar og greiddu ekki þetta 30% gjald. Þá lagði meiri hluti efh.- og viðskn. til að í stað þess að lækka skattana á bifreiðunum sem hér um ræðir ætti að hækka skattana á hinum bifreiðunum. Það var réttlætið þeirra, að þeir sem hafa ekki greitt þetta 30% álag fá núna í hausinn 25% álag á þungaskatt. Þetta eru samtals 364 bifreiðar. Það er sem sagt lagt á þær núna 25% álag á þungaskatt til að fullnægja réttlæti meiri hluta efh.- og viðskn. og á bifreiðum þeirra sem kærðu er álagið lækkað til samræmis úr 30% í 25%. Þannig að í stað þess að fella niður 30% álag á 570 bílum er núna lagt til, herra forseti, að setja 25% álag á þungaskatt á eitt þúsund bifreiðar.

Þessi útfærsla skilaði ríkissjóði tekjum upp á 29 millj. Áður hafði hún skilað 21 millj. þannig að með þessari útfærslu var bætt þarna við skattahækkun upp á 8 millj., en henni var varið hins vegar til að lækka vörugjald af rútum sem menn voru alveg sammála um að yrði að gera.

Með þessari aðferð meiri hluta efh.- og viðskn. stendur ríkissjóður á sléttu en, herra forseti, það er farin mjög ósanngjörn leið að því marki. Þegar á að jafna samkeppnisstöðu út frá skattlagningu er það mitt mat að langeðlilegast sé að fella niður þann skatt sem veldur mismuninum í stað þess að leggja þennan sama skatt á aðra sem ekki hafa þurft að greiða hann.

Mér finnst það mjög sérkennilegt að það skuli koma í minn hlut --- en kannski ekkert svo sérkennilegt --- að tala gegn auknum álögum á bifreiðar í atvinnurekstri, eins og hér er gert, þær tæpu 400 bifreiðar sem þurfa að greiða þennan þungaskatt aukalega til að mæta kröfum samkeppnisráðs. Mér finnst þetta ósanngjarnt. Vegna þess að við erum hvort sem er í vandkvæðum með rekstrarskilyrði allra þessara bíla hvort sem eru sendibílar, leigubifreiðar eða stærri bílar, ég tala nú ekki um rútur. Bílaflotinn hefur elst mjög mikið á undanförnum árum. Ýmiss konar gjaldtaka er á þessum bifreiðategundum og það eru ekki rök í mínum huga að segja að þessir bílar hafi það nú svo gott miðað við stærri bíla. Það er hægt að færa þau rök að stærri bílar greiði hlutfallslega meira en sendi- og leigubílar en það bætir ekkert stöðu þeirra. Ég hef ekki, herra forseti, heyrt um sérstaklega góða afkomu í leigubílaakstri eða í hefðbundnum sendibílaakstri, síður en svo.

Mér hefði fundist langeðlilegast, alveg eins og félögin töluðu um þegar þau lögðu málið fyrir efh.- og viðskn., Frami, bandalag ísl. leigubifreiðastjóra, Trausti, félag sendibifreiðastjóra, og Landssamband vörubifreiðastjóra, þegar fulltrúar þeirra komu til fundar við nefndina, að einfaldlega fella þetta 30% gjald niður og mæta réttlætinu og úrskurði Samkeppnisstofnunar með þeirri aðferð. Mér hefði fundist það langeðlilegast og ekki síst í ljósi þess að ekki er um að ræða neinar umtalsverðar upphæðir. Ég minni enn og aftur á það að ég hefði gjarnan viljað athuga hvort við hefðum ekki getað tryggt þetta tekjutap ríkisins með öðru móti í stað þess að leggja það á bifreiðar sem ekki voru í þessum gjaldflokki áður. Mér finnst þetta vera ákveðin prinsippákvörðun hvernig menn reyna að mæta úrskurði Samkeppnisstofnunar um skerta samkeppnisstöðu, hvort menn reyna að mæta réttlætinu með því að lækka þann skatt sem ágreiningnum veldur eða hvort menn fara þá leið að hækka skattinn hjá hinum sem nutu áður hinnar bættu samkeppnisstöðu. Mér finnst þetta ósanngjarnt og óskynsamlega að farið og ég lagðist gegn þessari afgreiðslu nefndarinnar. Það eru nú ekki nema fimm af níu nefndarmönnum í nefndinni sem flytja þetta frv. Við fjórir sem ekki erum aðilar að frv. kusum að standa ekki að því, fannst þetta kannski ekki mjög góð og skemmtileg útfærsla, allt frá því að vera alfarið á móti því. Ég veit reyndar að þessu er nú ekki fylgt af neinum sérstökum áhuga af ýmsum nefndarmönnum í efh.- og viðskn.

Þetta er ógeðfelld lending. Ég taldi það brýnt að efh.- og viðskn. tæki af skörungsskap á úrskurði Samkeppnisstofnunar og jafnaði starfsskilyrðin. Mér finnst sú lending sem meiri hlutinn leggur til ógeðfelld og ekki hinni ágætu nefnd sæmandi. Það er hins vegar ekkert við því að gera. Meiri hlutinn komst að þessari niðurstöðu og ég geri ráð fyrir að þeir hafi til þess þingstyrk í sínu baklandi. Það eru stjórnarþingmenn sem standa að tillögunni, að knýja málið fram. Það verður þá væntanlega að lögum áður en við förum í jólaleyfi. En ég veit að þetta var ekki sú jólagjöf sem ég hefði viljað gefa hvorki sendibílstjórum né leigubílstjórum, sem unnu málið, að gefa þeim þá jólagjöf að lækka einungis álagið úr 30% niður í 25%, og síst af öllu hefði ég viljað framkvæma það réttlæti með því að taka upp álag á aðrar bifreiðar, fara úr 0% álagi upp í 25% álag. Þetta eru heldur kaldar kveðjur til atvinnubílstjóra sem meiri hluti hv. efh.- og viðskn. er að senda rétt fyrir jólin með stuðningi stjórnarflokkanna. Það hefði mátt sýna þessu fólki og stöðu þeirra meiri virðingu en þetta frumvarp gerir ráð fyrir.