Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 20:58:40 (2712)

1997-12-18 20:58:40# 122. lþ. 48.13 fundur 330. mál: #A lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (uppgjör á skuldbindingum, iðgjöld til B-deildar) frv. 142/1997, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[20:58]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þskj. En undir þetta nál. skrifa auk mín allir nefndarmenn, þó ekki hv. þm. Pétur H. Blöndal. (Gripið fram í.) Herra forseti. Stjórnarandstaðan birtist í ýmsum myndum.

Herra forseti. Það eru tvær breytingar sem nefndin leggur til í tveimur liðum:

Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein, 1. gr., er breyti 1. mgr. 13. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Breytingin felur það í sér að stofn til iðgjalds til A-deildar sjóðsins verði hinn sami og gert er ráð fyrir í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Lögð er til sú breyting á 1. gr. frumvarpsins, er verði 2. gr., og 3. gr., er verði 4. gr., að launagreiðendum, sem tryggja starfsmenn sína í sjóðnum, verði gert kleift að gera upp skuldbindingar sínar með skuldabréfum. Þessi möguleiki hefur hingað til eingöngu verið til staðar fyrir aðra en ríkið og ríkisstofnanir. Er þetta sérstaklega æskileg breyting vegna ríkisstofnana með sjálfstæðan fjárhag sem að öllu eða mestu leyti eru reknar fyrir sjálfsaflafé.

Þá er lögð til sú breyting að þeim launagreiðendum sem óska eftir að greiða reglubundið og mánaðarlega hærra framlag til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga upp í þær kröfur sem myndast vegna uppbóta á lífeyri verði gert kleift að gera það með því að greiða sama iðgjald vegna þeirra sem eru í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga og þeirra sem eru í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Með því verður aðild að þessum deildum hlutlaus að því er varðar greiðslur og greiðsluáætlanir vegna launa og launatengdra gjalda.