Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 21:28:56 (2717)

1997-12-18 21:28:56# 122. lþ. 48.15 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[21:28]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar vil ég aðeins vekja athygli hv. þm. á því að dagsetning að lögunum sem var verið að breyta var 31. des. 1991, sbr. lög t.d. nr. 1/1992 og lög nr. 50/1994. Ég hygg að raungildi þessara gjalda hafi lækkað ef eitthvað er frá þessum tíma. Eins vil ég vekja athygli hv. þm. á því að það er rétt svo langt sem það nær að þessi gjöld koma að sjálfsögðu íþyngjandi gagnvart þeim sem eru í fjárhagserfiðleikum.

[21:30]

Áður en þessi gjöld voru sett á á sínum tíma var mikið um það að dómstólarnir væru beinlínis misnotaðir í því augnamiði að kröfuhafar voru að eltast við fólk og halda fólki í nánast samfelldu gjaldþroti án þess að nokkurn tímann væri möguleiki á að fá neitt upp í slíkar kröfur. Ég hygg að sá ósiður hafi að nokkru leyti lagst af og þrátt fyrir að þessi gjöld séu að mörgu leyti óheppileg, eins og hv. þm. gat um, þá eru þau kannski ekki að öllu leyti alvond.