Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 23:12:08 (2734)

1997-12-18 23:12:08# 122. lþ. 48.16 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[23:12]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði mjög skilmerkilega grein fyrir áliti okkar í minni hluta efh.- og viðskn. Mér finnst hins vegar rétt að fara nokkrum orðum um efnisþætti frv. Það má taka undir þá gagnrýni sem hér var borin fram að vitaskuld hefði farið betur á því og verið meiri sómi að því að ráðherrarnir sem tengjast þessu bandormsfrv. hefðu verið hér til svara og skýringar á sínum þáttum þegar málið kemur frá nefnd til 2. umr. Það sem merkilegt er við málið er að það hefur tekið sáralitlum breytingum í meðförum nefndarinnar. Við drógum upp, herra forseti, við 1. umr. veikleika í frv. og ágreiningsefni, því að bandormsfrv., þ.e. frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, endurspeglar stjórnarstefnu hvers tíma. Það má segja að þetta frv. sverji sig í ættina. Það endurspeglar alveg ágætlega stjórnarstefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Frumvarpið einkennist af því að skertir eru tekjustofnar sem eru markaðir ýmsum þeim mikilvægustu þáttum í þjóðfélaginu, bæði á sviðum menntunar, heilsugæslu, vinnumarkaðsmála, almannatrygginga, vegamála og á ýmsum öðrum sviðum. Allt eru þetta málaflokkar, herra forseti, sem við í stjórnarandstöðunni berum fyrir brjósti og höfum lagt upp með. Bæði við 1. umr. og í störfum í hv. efh.- og viðskn. höfum við reynt okkar ýtrasta að fá meiri hlutann til að breyta um áherslur og taka að nokkru leyti tillit til okkar sjónarmiða. Það hefur ekki tekist og við verðum að horfast í augu við að enn um sinn erum við í minni hluta á hinu háa Alþingi. Við verðum því að sætta okkur við að stjórnarstefnan nái fram að ganga þótt okkur sé hún ógeðfelld.

[23:15]

Ef ég skoða fyrst brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. eru þær, eins og ég nefndi áðan, lítilvægar. Þær eru í reynd þrjár talsins, tvær bornar fram af nefndinni og ein af formanni nefndarinnar sem var ákveðin á seinni stigum, en hægt er að líta á allar þessar brtt. sem tillögur frá meiri hluta nefndarinnar. Í fyrsta lagi er kveðið á um að loka dæminu gagnvart málefnum fatlaðra vegna þess að sá málaflokkur verður yfirtekinn af sveitarfélögum og gert ráð fyrir að sveitarfélög greiði allan kostnað af vistun fatlaðra, og tekin eru út ákvæði um skuldbindingar ríkisins á því sviði og í sjálfu sér ekkert óeðlileg brtt. í meðförum nefndarinnar með tilliti til forsögu málsins. Hins vegar er sérstök ástæða fyrir okkur að hafa áhyggjur af þessum málaflokki, einkum vegna þess að ríkisvaldið og ríkisstjórnin skerðir verulega lögbundin framlög í þennan málaflokk, eins og kemur fram í frv. og var ágætlega lýst af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Það eru ýmsir þættir í frv. sem vekja athygli. Ég bendi á og vil draga fram eina af brtt. sem meiri hlutinn flytur þar sem komið er til móts við kröfur okkar í stjórnarandstöðunni. Það kemur nú fyrir að við slítum eitt og eitt gott mál út úr stjórnarmeirihlutanum með mikilli fyrirhöfn. Það er það atriði að horfið var frá skerðingu í átakinu um lífræna ræktun. Það er fært aftur upp í 25 millj. en hafði verið skert um helming, 12,5 millj. Við höfum lagt áherslu á að þetta verði fært í fyrra horf í samræmi við þá stefnumótun sem Alþingi ákvað fyrir nokkru, og var það þingmál, að mig minnir, undir leiðsögn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Til bóta er að þetta ákvæði er fellt út úr bandorminum og hægt er að vitna í þá ágætu nefnd þingsins, hv. landbn. sem tók þetta mál alveg sérstaklega fyrir á fundi sínum.

Herra forseti. Auk þess að eiga sæti í efh.- og viðskn. á ég sæti í landbn. og stend þar að umsögn til efh.- og viðskn. varðandi bandorminn. Þar rituðu allir nefndarmenn undir álit þar sem hvatt var til að hætt yrði við skerðingu upp á 12,5 millj. Athyglisvert er að samstaða náðist milli allra þingflokka í landbn. um að knýja á um að þetta mál næði fram að ganga. Þarna er hugsunin fyrst og fremst sú að við lítum svo á að lífræn ræktun gefi sóknarfæri í íslenskum landbúnaði. Þar sé um að ræða þætti til nýsköpunar í atvinnugrein sem á undir högg að sækja og ekki veitir af meiri fjölbreytni á því sviði. Því ber að fagna að við náðum okkar fram hvað þann þátt varðar.

Sérstakt áhyggjuefni og vond stefna birtist í upphafi bandormsfrv., þ.e. að skerða lögbundin framlög til Þjóðarbókhlöðunnar í stað þess að reyna að marka þessum tekjustofni sess í anda þess þegar hann var samþykktur, þ.e. að verja honum til bygginga mannvirkja í tengslum við menntamál, safna og annarra slíkra þátta eða jafnvel víkka það út með samsvarandi lagabreytingum, að fella þennan tekjustofn betur inn í menntamálin. Það hefði ekki staðið, herra forseti, á okkur í stjórnarandstöðunni að stuðla að öllum þeim nauðsynlegu lagabreytingum sem hefðu þurft til að láta þennan markaða tekjustofn renna að fullu í menntamálin. En það er satt best að segja einkennismerki á þessari ríkisstjórn hve illa hún hefur staðið að menntamálum og það endurspeglast í þessari grein þar sem teknar eru 200 millj. af mörkuðum tekjustofni til Þjóðarbókhlöðu. Flestum, sem vilja vita, er kunnugt um það ófremdarástand sem er innan Þjóðarbókhlöðunnar hvað varðar bókakost og endurnýjun á ritum. Þetta hefur háð safninu og allri háskólakennslu mjög mikið og fæstir geta unnið almennilega að sínum vísindastörfum á Landsbókasafni -- Háskólabókasafni vegna bókafæðar. Ekki þarf að hafa mörg orð um hve það hefði verið til bóta að reyna að hugsa stórt í þessum efnum og efla þann málaflokk en þetta endurspeglar stefnu ríkisstjórnarinnar meðal annars í því þegar Háskóli Íslands bað um 230 millj. í viðbót við þessa fjárlagagerð ef ég man rétt og fékk af þeim 60 millj. Hins vegar er það ekki áhugamál þessarar ríkisstjórnar að verja meira fé til menntamála. Þeir eru ánægðir með að vera í einu af neðstu sætunum í Evrópu og aftast í öllum mælikvörðum hvað viðvíkur menntun og stöðu, ekki einungis fjárframlögum til menntamála, heldur einnig stöðu nemenda. Menn uppskera vitaskuld á því sviði eins og menn sá. Metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar er auðsætt hvað þennan málaflokk varðar, en stefnan kemur hins vegar fram í menntamálum í því þegar þeir ganga sérstaklega fram fyrir skjöldu við það að ná tökum, persónulegum tökum ríkisvaldsins í stjórnkerfi háskólastigsins. Þar kemur fram áhugi og þar er barist fyrir stefnunni þegar forsjárhyggja þessara tveggja Framsóknarflokka í ríkisstjórninni kemur hvað skýrast fram. (Gripið fram í: Það á að ráða rektor.) Það er ein átakanlegasta niðurstaðan í menntastefnunni að þeir telja að þeir hafi náð að höndla hinn mikla sannleika í þeim málaflokki þegar þeir geta skipað rektor og náð húsbóndavaldi yfir háskólum. Það mætti margt ræða um þá stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég læt þetta vera tilefni til að skoða þetta út frá skerðingarákvæðinu í bandormsfrv.

Það er einnig verulegt áhyggjuefni sem kemur fram í bandormsfrv. og ekki eru gerðar neinar breytingar á því. Það er sá niðurskurður sem gerður er í vegamálum. Ég vil benda á það sem segir í nál. okkar, þar er vitnað sérstaklega til samþykktar samgn. og enn og aftur, herra forseti, er það samhljóða afstaða samgn. í þessu tilfelli til ákvæða sem tengjast í bandorminum, að það eru þingmenn í öllum þingflokkum sem benda á að sú skerðing sem er í bandorminum og stendur hér eftir 1. umr. og meðhöndlun í nefnd, að ,,þessi skerðing mun hafa í för með sér um 6% lækkun fjárveitinga til nýframkvæmda frá vegáætlun þeirri sem samþykkt var í vor.`` Tekin er sem sagt upp vegáætlun, sem er rúmlega hálfs árs gömul, og skert um 6%. Það er alveg ljóst að þetta þýðir að mörgum brýnum verkefnum verður að fresta. Við höfum séð vandræðaganginn varðandi vegamálin sem tengist þéttbýlissvæðunum. Þau vandamál blasa við og einnig er hægt að nefna það sem kemur líka fram í bandormsfrv. og ekki er gerð nein tillaga um breytingar á, en það eru hin skertu framlög til flugmála og þess málaflokks. En þeir sem það vilja vita þekkja ástandið t.d. á Reykjavíkurflugvelli, sem er völlur sem flugvélar eru farnar að forðast einfaldlega vegna þess hvað viðhaldi er ábótavant. Það virðist vera, herra forseti, að við liggi að ríkisstjórnin stefni, ég vil segja óafvitandi, ég vil nú ekki segja vitandi en allt að því, í að slys verði bæði innan heilbrigðiskerfisins og einnig innan t.d. menntakerfisins ef ég tek raunhæfara dæmi en flugvellina. Það gengur náttúrlega ekki að láta tiltekna málaflokka drabbast það mikið niður að við eigum mjög erfitt með að vinna okkur út úr þeim erfiðleikum aftur. Þetta er einkenni á öllum þeim málaflokkum sem ég hef tilgreint, þ.e. menntamálin, samgöngumálin og heilbrigðismálin. Verið er að skera inn að beini í öllum þessum málaflokkum, og að flestra manna yfirsýn sem komið hafa að þeim málaflokkum er ljóst að þarna stöndum við nágrannaþjóðunum langt að baki.

Mig langar, herra forseti, að vitna til atriða sem tengjast félagsmálum. Það er náttúrlega viðamikill flokkur sem bandormurinn kemur að hluta til inn á og er enn frekar markaður í fjárlagafrv. en hafa þarf í huga að frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og fjárlagafrv. eru í reynd óaðskiljanlegir hlutir. Til dæmis er í áliti minni hluta félmn. bent á hina löngu biðlista í Reykjavík og Reykjanesi eftir sambýlum fyrir fatlaða og að aukið framkvæmdafé þurfi ef stytta á þá biðlista en framkvæmdaféð er skert í bandormsfrv. Allt er þetta því í samræmi, herra forseti, hjá hæstv. ríkisstjórn, skorið er niður á þeim málaflokkum og hjá því fólki sem á verst með að verja sig.

Einnig má nefna að nýsköpun í atvinnulífi og starfsmenntun eru ekki gerð nægjanlega góð skil, hvorki í fjárlagafrv. né í tengslum við bandorminn. Þetta eru málaflokkar sem hefði þurft að taka mun betur á en þar er gert. Vitaskuld er ekki nóg að ýta þessum málaflokkum yfir til sveitarfélaganna ef þess er ekki gætt um leið að veita þeim nægjanlega örugga tekjustofna. Ég vildi gjarnan, herra forseti, fá að varpa fram, þótt það tengist nú ekki frv. nema að hluta til þeirri hugmynd um uppstokkun á skattkerfi okkar, hvort við ættum ekki að íhuga að tekjur einstaklinga yrðu alfarið skattstofn sveitarfélaga. Nú rennur tekjuskattur einstaklinga að meiri hluta til sveitarfélaga en ekki til ríkisins eins og flestir halda. Ríkisvaldið er alltaf gert ábyrgt fyrir tekjuskattinum og hæstv. fjmrh., sem er nú skammaður fyrir margt og flest með réttu, fær oft og tíðum á sig högg í sambandi við tekjuskattskerfið sem hann á kannski ekki alltaf skilið að fullu, einfaldlega vegna þess að tekjuskatturinn rennur ekki nema að hluta til í ríkissjóð en að mestu leyti til sveitarfélaga. Mér finnst vel koma til greina að tekjur einstaklinga væru eyrnamerktar sveitarfélögum. Þetta er það fyrirkomulag sem þekkist í Danmörku. Það mundi þýða að umsvif sveitarfélaga yrðu mun meiri og þá væri hægt að færa verkefni yfir til þeirra á skynsamlegan hátt. Sömuleiðis væri hægt að velta þeirri hugsun fyrir sér hvort auðlindagjöld og auðlindaskattar, hvort sem væri veiðileyfagjald eða gjaldtaka af orku og jarðvarma eða annað þess háttar eins og við jafnaðarmenn höfum lagt til, væru eyrnamerkt sveitarfélögunum. Það væri þá liður í þeirri uppstokkun í skattkerfi landsmanna að skapa umgjörð fyrir ný skattalög og allt aðra verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Mér þykir rétt, herra forseti, að vekja athygli á þessum hugmyndum og vonandi verður hægt að ræða þær við betra tækifæri.

[23:30]

Mig langar að lokum, herra forseti, að gera að umtalsefni eitt mikilvægasta atriðið í bandormsfrv. sem er breytingar á bótum almannatrygginga. Þarna eru tíðindi á ferðinni vegna þess að við í stjórnarandstöðunni höfðum forustu um að berja á ríkisstjórninni þegar hún stóð að þeirri ósvífnu aðgerð að afnema tengingu bóta almannatryggingakerfisins við launaþróun og kjarasamninga árið 1995. Eftir það hafa eldri borgarar verið háðir geðþóttaákvörðunum ríkisstjórnar hvers tíma og ekki haft tryggingu fyrir hækkun bóta heldur hafa þeir þurft að sækja þær hverju sinni. Eldri borgarar sjálfir hafa barist mjög gegn þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar og segja má að nú hafi þeir náð sigri með þessu bandormsfrv. Við í stjórnarandstöðunni lögðum fram tillögu um að færa þetta í fyrra horf. Við höfum lagt fram tillögur á Alþingi sem hafa verið felldar í nafnakalli af ráðherrum og þingmönnum stjórnarliða. Nú koma þeir hins vegar sjálfir með frv. sem reyndar er ekki alveg nógu skýrt orðað en við verðum að lesa þannig í textann að vel sé. Í áliti okkar í minni hlutanum segir að við lítum svo á að orðalag 9. gr. beri að skilja svo að bætur almannatrygginga skuli beinlínis fylgja launaþróun, þ.e. launavísitölu og síðan er miðað við að ef verðlagsvísitala hækkar meira þá muni það taka breytingum í samræmi við verðlag. Ég veit að eldri borgarar skilja þetta á þennan hátt. Þetta er hins vegar dálítið loðið orðalag í frv. og ekki gerð tillaga um breytingu á því af hálfu meiri hlutans. Í frv. segir:

,,Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Við lítum svo á að ákvarðanir um bætur skuli fylgja launavísitölu eða launaþróun. Væntanlega yrði miðað við launavísitölu og tryggt er að bætur almannatryggingakerfisins munu hækka t.d. um 4% um næstu mánaðamót sem er sama hækkun og verður í kjölfar kjarasamninga.

Það er mjög mikilvægt, herra forseti, að menn nái að skilja þetta réttum og sambærilegum skilningi þannig að ellilífeyrisþegar fái bætur í samræmi við það sem gerist í þjóðfélaginu. Benda má á að ef okkar frv. hefði verið samþykkt hefðu bætur eldri borgara hækkað mun meira en þær gerðu á þessu tveggja ára tímabili einfaldlega vegna þess að lægstu laun eða laun, sem miðað var við, hækkuðu mjög verulega í síðustu kjarasamningum og eldri borgarar hefðu notið þess.

Þessi skilningur sem ég er að lýsa kemur fram í ágætu áliti frá minni hluta heilbr.- og trn. og ég vildi gjarnan, með leyfi forseta, fá aðeins að vitna til þess álits. Þar segir svo:

,,Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa margsinnis lýst yfir að frá og með komandi áramótum verði bætur almannatrygginga tengdar launavísitölu, þó þannig að bætur hækki aldrei minna en vísitala neysluverðs. Þessa sér þó ekki stað í frumvarpi forsætisráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Fulltrúar minni hlutans í heilbrigðis- og trygginganefnd telja því nauðsynlegt að tekin séu af tvímæli um viðmið og framkvæmd bótahækkana. Jafnframt þarf að tryggja með ótvíræðum hætti að fyrirhuguð 4% launahækkun sem ráðgerð er um næstu áramót komi einnig fram í hækkun bóta almannatrygginga.``

Síðan leggja þeir fram tillögu um orðalag að 65. gr. og tala um, eins og ég hef lýst hér, að bætur eigi að breytast í samræmi við launavísitölu, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag, samkvæmt vísitölu neysluverðs. Síðan er talað um að breytingarnar verði ársfjórðungslega. Hér er minni hluti heilbr.- og trn. að kalla eftir betri tryggingu á framkvæmd þessa mjög svo mikilvæga ákvæðis, og við stjórnarandstæðingar í efh.- og viðskn. gengum mjög harkalega eftir því við meiri hluta nefndarinnar hvernig bæri að skilja þetta mál og hvað væri með hin 4% nú um næstu áramót og fengum þær yfirlýsingar sem ég gat um að bæturnar mundu hækka um 4%. Það bæri að skilja þetta þannig að bætur almannatryggingakerfisins mundu hækka um 4% um næstu mánaðamót. Ég tel því að okkar skilningur, eins og honum er lýst í áliti minni hlutans, og með því að vitna til yfirlýsinga forsrh. við 1. umr. því orðalagið var nokkuð loðið í upphafi, hafi skýrt málið þannig að við getum haldið því fram að við höfum náð meginþáttum í stefnu okkar við að tengja bætur úr almannatryggingunum við launaþróun og þar með tekið úr sambandi þessa stefnu hæstv. ríkisstjórnar, að eldri borgarar yrðu að lúta geðþóttaákvörðunum stjórnvalda hverju sinni.

Herra forseti. Við lítum svo á að þetta bandormsfrv. feli í sér niðurskurð á sviðum sem eru okkur mjög verðmæt, menningarmál, menntamál, velferðarmál og samgöngumál, heilbrigðismál og félagsmál. Þarna eru fjölmargir málaflokkar, eins og ég hef rakið, sem eru skertir. Við í minni hlutanum og stjórnarandstöðunni erum andsnúnir þeirri stefnumörkun hæstv. ríkisstjórnar sem birtist á ósvífinn hátt í fylgifrv. með fjárlögum, þessu bandormsfrv. Meiri hluti efh.- og viðskn. sá enga ástæðu til að breyta þessu frv. í neinum grundvallaratriðum, þannig að stjórnarstefnan er alveg ómenguð, hin gallaða stjórnarstefna eins og hún birtist við fjárlagagerðina og ekki batnar hún við þetta frv. sem við erum að afgreiða og ræða við 2. umr.