Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:07:06 (2746)

1997-12-19 12:07:06# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:07]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst að hv. þm. sé dálítið að teygja lopann og hann hefði ekki þurft annað en að ræða við flokksbróður sinn hv. þm. Ágúst Einarsson sem tók dyggilegan þátt í störfum efh.- og viðskn. Hann hefði getað skýrt honum frá þeim umræðum sem áttu sér stað í nefndinni og m.a. umræðum um tillögu hv. þm. eins og hún kom frá heilbr.- og trn.

Hv. þm. ræðir mjög um framtíðina og að allir þurfi að hafa fyllstu tryggingu fyrir framtíðinni. Auðvitað skilur maður þá viðleitni hv. þm. að vilja gjarnan geta séð alla hluti fyrir en þannig er nú ekki alltaf hægt að haga hlutunum. Það sem ég tel að skipti mestu máli gagnvart því fólki sem er að njóta bóta almannatrygginga er að ákveðinn stöðugleiki sé og ekki verið að vekja væntingar sem ekki er hægt að standa við og þegar skref eru stigin áfram þá séu það raunverulega skref áfram en ekki skref aftur á bak. Fólk geti því lagt plön út frá því sem það er með í höndunum á hverjum tíma og ekki sé verið að vekja upp einhverjar falskar vonir. Til dæmis gæti það að miða við launavísitölu og launaskrið á stuttu mjög afmörkuðu tímabili orðið til þess að bætur þyrftu bæði að hækka og síðan að lækka strax aftur í kjölfarið vegna þess að launaskrið hefði gengið til baka. Þess vegna er betra að hleypa formúlu eins og kemur fram í lagatextanum af stað og sjá til hvernig hún reynist og hvort t.d. ef launaskrið er orðið mjög almennt í þjóðfélaginu, ef kaupmáttur launa hækkar á einhverju tiltölulega rúmu tímabili meira en almennt gerist og menn sjá að þarna er kominn kaupmáttur sem þjóðin tapar ekki til baka, þá hlýtur það að endurspeglast í endurskoðunarbótum almannatrygginga eins og mjög oft hefur gerst áður.