Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:12:53 (2749)

1997-12-19 12:12:53# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:12]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að vera að ég hafi í einhverju ofmetið það vald sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur yfir kollegum sínum í stjórnarliðinu í hv. efh.- og viðskn. Að öðru leyti mótuðust orð mín af því að ég veit að samkvæmt lögum um þingsköp er þetta mál í dag ekki á forræði ríkisstjórnarinnar heldur á forræði Alþingis, þ.e. það hefur verið síðustu daga á forræði efh.- og viðskn. þar sem hv. þm. er í forsvari. Ég leyfði mér einungis að undrast það að fyrst hv. þm. er að vekja væntingar um að bótaþegar almannatryggingakerfisins eigi von á að sjá launaskrið í þjóðfélaginu endurspeglast í bótum sínum, hví í ósköpunum hann beitir ekki aðstöðu sinni til að binda þann vilja í lagatexta. Þá mundi hann í senn vera að efna sínar eigin yfirlýsingar og líka þær yfirlýsingar sem óhjákvæmilegt var að lesa út úr orðum hæstv. forsrh. En nú hefur formaður efh.- og viðskn. greinilega vikið úr salnum þannig að mér er erfitt, herra forseti, að eiga orðastað við hann. Ég skal því láta þessu lokið að sinni en skora á hv. þm. --- fyrst hann birtist aftur hér í gættinni --- að láta verða af því við fyrsta tækifæri að efna þær væntingar sem hann hefur vakið með því að beita sér fyrir eða eftir atvikum styðja þingmenn stjórnarandstöðunnar í því að binda þetta í lagatexta, tryggja það endanlega að launaskriðið úti í þjóðfélaginu muni líka endurspeglast í kaupmáttarþróun almannatryggingakerfisins.