Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:25:53 (2753)

1997-12-19 12:25:53# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:25]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Til að tryggja þetta, þá bindur þingmaðurinn sig fastan í hvað? Verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs, stendur hér. Hann er með öðrum orðum að binda þetta fast í tiltekna vísitölu þannig að það er alveg ljóst að hann fellur á eigin prófi að því er varðar þá miklu gagnrýni og árásir á vísitölubindingar. Hann viðurkennir að ekki er hægt að tryggja þetta lágmark nema nota vísitölu neysluverðs. Síðan er það þannig og um það er ágreiningur, hv. þm., þó hann muni væntanlega ekki birtast í atkvæðagreiðslu. Sumir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haldið því fram að ætti að binda bótahækkunina við launahækkanir eins og þær kunna að verða á hverjum tíma. Það vill hv. þm. hins vegar ekki gera. Um það snýst ágreiningurinn. En menn eru væntanlega sammála um grunninn, að binda kaupmátt bótanna við þetta lágmark sem er fastur við þann stjóra sem er verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.