Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:36:48 (2762)

1997-12-19 12:36:48# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:36]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta snýst um kjör fólks og kaupmátt. Kaupmáttur verkafólks á Íslandi hefur því miður ekki hækkað um 23% á þessu ári. Það eru engar efnahagslegar forsendur fyrir því að svo væri. Kaupmátturinn hefur þó hækkað heilmikið. Á alþjóðlegan mælikvarða þykir það nokkuð mikið, 6--8%, kannski þykir ekki öllum það nóg. Það má deila um það. Kaupmáttur ellilífeyrisþega hefur verið ákveðinn ekki minni heldur meiri þannig að fráleitt er að kenna ríkisstjórninni um það að hún hafi viljað í einu né neinu platað ellilífeyrisþega. Það er bókstaflega rangt. Breytingarnar á töxtunum segja ekkert til um það hvaða kjarabætur verkamenn fengu. Allir vita hvernig það er. Það þarf ekki að spyrja hvern einasta verkamann að því þannig að hér er verið viljandi að villa um og menn eiga ekki að hafa svoleiðis málflutning á þingi.