Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 19:07:02 (2844)

1997-12-19 19:07:02# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[19:07]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Nokkur orð frá undirrituðum við lokaafgreiðslu fjárlaga. Það er alveg ljóst að við erum við ákaflega undarlegar aðstæður, það fer ekki á milli mála. Eins og margsinnis hefur komið fram og þá einkanlega stjórnarsinnar hafa undirstrikað og áréttað, er hásveifla í efnahagslífinu og ríkissjóður bólgnar svo sannarlega út. Peningarnir renna í hann í stríðum straumum en raunar jafnharðan úr honum aftur því að þrátt fyrir alveg gífurlega tekjuaukningu ríkissjóðs á næsta ári og raunar líka yfirstandandi ári er ekki meira en svo að stjórnarmeirihlutinn geti skilað af sér hallalausum fjárlögum. Það stendur á endum.

Sannarlega bendir allt til þess að umtalsverður halli verði á fjárlögum næsta árs, þ.e. ef tekjuhlið fjárlaganna er eitthvað nærri lagi því að á hinn bóginn er alveg ljóst að frammúrkeyrsla er fyrirsjáanleg á gjaldahliðinni. Það sýnir reynsla yfirstandandi árs svo ekki verður um villst og birtist ljóslega í fjáraukalögum sem voru afgreidd fyrir nokkrum dögum. Þar nam frammúraksturinn sjö milljörðum kr. Það gerðist á sama tíma og fjárlög yfirstandandi árs fyrir réttu ári voru líka afgreidd með verulegri útgjaldaaukningu ef miðað er við árið 1996. Allt horfir þetta á einn veg. Ríkissjóður bólgnar út og sama hvernig á er litið. Hvaða grunn sem menn vilja bera sig saman við, tekjugrunn eða greiðslugrunn, þá er samneyslan að stóraukast og hlutdeild ríkissjóðs í þeim efnum er þar sannarlega efst á blaði.

Það er mjög mikilvægt og eftirtektarvert að staldra aðeins við þennan veruleika því að ég man ekki betur en stjórnarflokkarnir tveir, Sjálfstfl. og Framsfl., hafi mjög talað um það og þá einkum og sér í lagi sá fyrrnefndi að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, ekki til þess eins að minnka hallann á fjárlögum hvers árs eða koma böndum á hina efnahagslegu hlið fjárlaganna heldur ekki síður væri þar um að ræða trúarbrögð í þeim herbúðum að það þyrfti að fækka opinberum stofnunum og draga mjög verulega úr vægi þeirra í íslensku samfélagi. Í því ljósi hefur Sjálfstfl. oft og einatt rætt um nauðsyn þess að leggja niður stofnanir, selja þær hæstbjóðendum og koma þeim út úr ríkisreikningi. Það hefur gengið hægt en jafnvel þó að það hafi gengið í einhverjum vissum tilfellum og ríkisstjórnin hafi farið fram með áform og raunar framkvæmt sum þeirra um sölu ríkisfyrirtækja verður þess ekki vart í tölulegum staðreyndum og hinum tölulega veruleika þessara fjárlaga því að heildartölurnar hækka ár frá ári og virðist ekkert lát á. Maður hlýtur að spyrja og ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., ef hann heyrir mál mitt, og raunar líka formanns fjárln., hv. þm. Jóns Kristjánssonar: Ef ekki er hægt að skila ríkissjóði með umtalsverðum tekjuafgangi núna, hvenær þá? Ef ekki er hægt á hástigi efnahagsbatans og góðærisins að skila ríkissjóði með umtalsverðum tekjuafgangi á næsta ári, hvenær er það þá hægt? Sér hv. þm. Jón Kristjánsson þau merki á komandi árum þegar eitthvað dregur úr góðærinu sem sannarlega mun verða að veruleika fyrr en síðar? Eru meiri möguleikar þá til þess að draga úr?

Ég rifja upp að í tíð síðustu ríkisstjórnar á miklum erfiðleika- og samdráttartímum í samfélaginu var sú ríkisstjórn nauðbeygð til þess að draga saman í útgjöldum ríkissjóðs og tókst bærilega upp á mörgum sviðum, gerði vissulega mistök og átti við ramman reip að draga. Hún átti m.a. við að etja mjög harðsvíraða, skulum við segja, stjórnarandstöðu sem vildi engan þátt taka í þeim tilraunum. En mér sýnist á öllu að menn séu búnir að gefast upp á þessu viðfangsefni, sem stundum hefur verið kallað sjálfkrafa útgjöld úr ríkiskassanum. Stundum jafnvel verið nefnt sjálftaka og þá einkum og sér í lagi hef ég horft til undirstofnana ríkissjóðs, ekki eingöngu ráðuneytanna, sem virðast geta farið sínu fram nánast að vild og sótt fé sitt í fjáraukalögum eftir því sem þeir kjósa. En ég hlýt að staldra við þennan einasta punkt. Ef okkur tekst ekki að setja bönd á ríkisútgjöld og koma fjármunum til hliðar til þess að fjárfesta í framtíðinni, til þess að greiða niður skuldir, til þess að skila ríkissjóði með afgangi, ef það er ekki hæst á næsta ári, hvenær er það þá hægt?

Ég sé ekki þess dæmi og ég kalla líka eftir því hvort einhver hrópandi dæmi og einhver handföst dæmi séu um að fjárln. og fjmrn. hafi uppi umtalsverðar tilraunir til að stemma stigu við sjálfkrafa útgjaldaþörf ríkissjóðs. Eru einhver dæmi einhvers staðar þar sem menn eru með kerfisbreytingu og formbreytingu að taka á? Eru einhverjar stýrinefndir víðar á ferð í ríkiskerfinu en eingöngu í sjúkrahúsamálum sem ég mun koma að nánar á eftir? Mér þætti vænt um að heyra hvar menn eru að reyna að stemma stigu við útgjöldunum. Ég sé það hvergi í gögnum fjárln. Ég sé það heldur ekki í frv. hæstv. fjmrh. sem hann dreifði á fyrsta degi þingsins. Ég hlýt því að spyrja beint um það hvar menn eru að gera slíkar tilraunir því auðvitað er ekkert svar að halda því fram að verulegur árangur sé í höfn vegna þess að mönnum takist með harmkvælum að skilja eftir einhverja 10 þúsund kalla á niðurstöðutölum fjárlaganna þegar tekjuaukningin skiptir tugum milljarða á umliðnum þremur árum.

[19:15]

Ég var einmitt að rifja upp hvernig þetta blasti við í dag ef borið er saman til að mynda við undirbúning fjárlaga 1994 þegar ég kom dálítið að því verki sem þáv. heilbrrh. Maður lifandi. Þessu er ekki saman að jafna. Aðstæður eru gerbreyttar. Tekjurnar hafa hækkað um tugi milljarða kr. og sem betur fer hefur ríkissjóður tök á því að sækja sér fé en þá spyr ég og árétta enn og aftur: Hvers vegna í veröldinni nota menn ekki lagið og möguleikana til þess að ná niður hallanum og skilja eftir smáafgang til þess að eiga borð fyrir báru þegar stóra kröfugerðin fer að birtast hér og þar og alls staðar þegar fjárlagaárið hefst? Auðvitað eru víða slíkar þarfir og slíkar kröfur uppi við, kröfur sem við sjáum fyrir okkur að verði mjög erfitt og nánast vonlaust að standa gegn þegar til kastanna kemur. Því miður verður það þannig að við á hinu háa Alþingi verðum ekki spurð þegar til útgjaldanna er stofnað. Það verður bara veruleikinn sem blasir við okkur á hausti komanda þegar fjáraukalög birtast okkur og í ljós kemur að útgjaldastreymið hefur verið miklu minna en við ákváðum. Það er bara veruleikinn sem blasir við okkur, því miður.

Í þessu sambandi hlýt ég að staldra eilítið við það, virðulegi forseti, og þá ætla ég að leita eftir því og spyrja um það, því ég geri yfirleitt ekki mikið af því, hvort hæstv. utanrrh. sé í húsinu eða hvort hann sé hættur að sinna þingstörfum. Ég tók eftir því að við atkvæðagreiðslu í dag kom formaður Framsfl., sem hefur haft öðrum hnöppum að hneppa síðustu dagana og verið lítið við umræðuna, og hóf setu við atkvæðagreiðslu dagsins. En hann hvarf fljótlega á braut, mátti ekki vera að því að ljúka henni, sat t.d. ekki undir mikilvægri atkvæðagreiðslu um bandorm. Ég veit ekki hver ástæðan var en það er eftirtektarvert. Ég spyr: Er hæstv. utanrrh. í húsinu?

(Forseti (StB): Forseti getur upplýst að hæstv. utanrrh. er ekki í húsinu.)

Það var auðvitað að vonum eins og venja er. Ég hef ekki neinar óskir uppi um að hann komi hingað. Ég hef enga nennu að bíða eftir því. Hann hefur ekki haft ástæðu til að sinna þessu fram að þessu og engin ástæða til að hann geri það héðan af. En ástæðan fyrir því að ég bið um það og kalla eftir viðveru hans eru þær miklu stærðir sem birtust okkur fyrir nokkrum dögum í fjáraukalögum þar sem hæstv. ráðherra og annar oddvita ríkisstjórnarinnar leyfði sér að fara 400 millj. kr. fram úr í húsakaupum. Hér eru menn á Alþingi og hæstv. forseti þingsins að birta mjög hógværar kröfur og tillögur Alþingis, forsætisnefndar og formanna þingflokka um 20 millj. kr. stofnframlag til bygginga þingsins sem býr mjög þröngt. Hæstv. utanrrh. tékkaði út 400 millj. kr. til tveggja verkefna og hinu háa Alþingi var tilkynnt um það eftir að sá gjörningur var orðinn veruleiki. Ég fór nokkrum orðum um þetta við umræðu og ætla ekki að endurtaka það en þetta vakti mig dálítið til umhugsunar og ég náði mér í úttekt á stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar á utanrrn. sem gerð var raunar að beiðni fyrrv. utanrrh., Jóns Baldvins Hannibalssonar, en var út af fyrir sig ekki fullkláruð fyrr en á yfirstandandi kjörtímabili og var skilað í maí 1996 fyrir hálfu öðru ári þar sem gerð er nokkuð ítarleg grein fyrir húsnæðismálum utanrrn. á erlendri grundu. Þar kemur margt býsna merkilegt fram því að í maí 1996, og ég rifja upp að þá hafði hæstv. núv. utanrrh. setið í embætti í heilt ár, eru listaðar hér ... (Gripið fram í.) Ef von er á hæstv. ráðherra eftir fimm mínútur, þá ætla ég, virðulegi forseti, að geyma mér umfjöllun um þetta mál og víkja að öðrum atriðum þannig að hæstv. ráðherra megi hlýða á mál mitt og mun því víkja tali mínu að allt öðrum málum sem þó eru ekki síður veigaþung og mikilvæg. Það eru samgöngumálin.

Ég veit ekki hve margir hv. þingmenn hafa lagt sig eftir því að lesa álit sameiginlegt álit samgn., allra níu fulltrúanna í samgn., þriggja stjórnarandstæðinga og 5--6 stjórnarliða. Þar fer ekkert á milli mála. Þetta álit gilti jafnt um bandorminn og þær skerðingar sem var að finna í honum og einnig þær niðurstöðutölur sem er að finna tillögum í meiri hluta fjárln. Þar er ekkert verið að skafa utan af hlutunum og ég tel mikilvægt að hv. þingmenn átti sig á því hver afstaða manna er til þeirra tillagna sem liggja fyrir. Þar eru menn á borð við Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson, Stefán Guðmundsson, Egil Jónsson og Kristján Pálsson svo ég nefni þá sem eru tíndir til sögu í stjórnarliðinu sem gera glögglega grein fyrir því að lækkun framlaga til vegamála nemi einum milljarði 64 millj. kr. sem áform voru uppi um og hefur sá niðurskurður hækkað um einar 100 millj. kr., er þannig 1.164 millj. kr. og þar segja menn bara bókstaflega að þetta geti ekki gengið svona. Þess vegna var það hér við 2. umr. að við stjórnarandstæðingar létum á það reyna með beinum tillöguflutningi og í atkvæðagreiðslu hvort hv. þingmenn hefðu meint eitthvað með yfirlýsingum sínum í áliti samgn. eða hvort þetta væru bara merkingarlaus orð á blaði. Því miður kom á daginn að þeir létu kúska sig og beygja og greiddu atkvæði þvert gegn vilja sínum og áður yfirlýstum skoðunum sínum með niðurskurði upp á rúman milljarð kr. Það er undrunarefni. En þeir eiga sannarlega enn þá möguleika á því við 3. umr. að lappa örlítið upp á eigin ásýnd með því þó að standa gegn enn frekari niðurskurði af mörkuðum tekjustofnum sem eiga að renna til vegagerðar með því að greiða atkvæði gegn enn frekari niðurskurði upp á 100 millj. kr. Þeir eiga enn þá möguleika á því að bjarga andlitinu, þessir þingmenn dreifbýlisins einkum og sér í lagi sem á hátíðarstundum og í fjölmiðlum fara gjarnan mikinn og hafa sagt það með réttu að vegabætur væru grundvallaratriðið og langmikilvægasta atriðið ef ætti að stöðva þá öfugþróun sem hefur átt sér stað varðandi búferlaflutninga Íslendinga á síðustu árum og reyndar áratugum. Margir hverjir hafa reyndar haft uppi heitstrengingar um að þeir láti ekki yfir sig ganga í þessum efnum og þeir ætli sér að standa gegn þessu. Ég held að það sé opinbert leyndarmál í þessu húsi að ýmislegt hefur gengið á í þingflokkum stjórnarflokkanna í þessum efnum og orðið talsverður hávaði millum manna um einmitt þessi mál. Það er líka held ég opinbert leyndarmál að þessir þingmenn og fleiri landsbyggðarþingmenn ætli sér að rétta þann óútfyllta tékka heima í héraði þegar þeir fara nú heim í jólaleyfið og segja óánægðum kjósendum sínum vítt og breitt um landið að ekkert sé að marka þessi fjárlög því í vegáætlun til lengri tíma, hvort það eru 12 eða 14 ár, eigi að fara í þetta, þá eigi að fara í hitt. Það er einmitt merkilegt í þessu nefndaráliti í þessu samhengi að allir samgöngunefndarmenn voru sammála um að í framlögum til hafnamála og nú les ég orðrétt: ,,Samgöngunefnd telur þetta mikilvægt, þ.e. framlög til hafnamála yrðu í samræmi við hafnaáætlun, og samgöngunefnd telur þetta mikilvægt vegna gildis stefnumörkunar í samgöngumálum þegar til lengri tíma er litið.``

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að samgn. og þingmenn almennt eru yfirleitt mjög áfram um það þegar áætlanir eru gerðar að hægt sé að standa við þær þó ekki væri nema næsta árið sem í hönd færi og sérstaklega fagna menn því að nú hefur staðist fyrsta ár hafnaáætlunar sem var samþykkt í fyrsta skipti sl. vor og ég tek undir það. Það er mjög mikilvægt ef menn ætla að hafa einhverja trú á slíkum áætlunum.

Svo bregður bara annað við þegar kemur að vegáætlun sem er líka tiltölulega ný af nálinni og menn gerðu það þannig við endurskoðun hennar að þeir gugnuðu á því þegar til kastanna kom að gera raunverulega vegáætlun og hlupu frá því verki á síðasta þingi, endurskoðuðu og kroppuðu örlítið í gildandi vegáætlun, með öðrum orðum að sú vegáætlun sem við stöndum frammi fyrir nær aðeins til næsta árs. En ekki einu sinni hún fær að vera í friði. Sú áætlun er orðin ómarktæk með tillögum fjárln. Og er þetta furða að samgn. sem lagði talsverða vinnu í að gera endurskoðun á gildandi vegáætlun þannig úr garði að hægt yrði að standa við hana sé dálítið óánægð. Ég vil láta það koma fram, þó ég viti ekki hvort hv. þingmenn og samþingsmenn mínir í samgn. heyri mál mitt, að árétta þær fyrirspurnir mínar til þeirra hvort þetta álit sem við urðum sammála um að senda frá okkur við fjárlagagerðina þar sem lýst var óánægju og rökstuddri gagnrýni okkar á þau áform fjárln. sem nú birtast okkur í þessu frv. við 3. umr., hvort það hafi verið orðin tóm eða hvort megi vænta þess að þeir láti til sín taka þó í litlum mæli sé við 3. umr. fjárlaga.

Raunar gildir það sama um flugmálin því að í sama nefndaráliti samgn. er gagnrýnt, skýrt og afdráttarlaust gagnrýnt að 60 millj. kr. séu teknar út úr flugmálaáætlun sem á að verja til uppbyggingar flugvalla vítt og breitt um landið og þá ekki síst í Reykjavík þar sem þörfin er mikil og brýn, heldur eigi að verja þeim fjármunum ekki bara á þessu ári heldur líka samkvæmt nýsamþykktum bandormi á næstu ártugum. Það er eins og mig minni að menn hafi þegar stungið inn samsvarandi upphæð næstu 20 árin til þess að greiða skuldir Leifsstöðvar, bæði hinnar gömlu og það sem menn eru að búa til á næstu árum við stækkun Leifsstöðvarinnar.

Ég hef áður sagt það og undirstrika að ég er mjög mikill áhugamaður um það og tel það mjög skynsamlega fjárfestingu að fara í stækkun Leifsstöðvar. En ég undirstrika og árétta að menn hafi vaðið fyrir neðan sig að þessu sinni og viti út í hvað þeir eru að fara í fjárhagslegu tilliti. Sú framkvæmd sem í var ráðist með miklu brambolti við kosningarnar 1987 er víti til að varast og íhaldið fór þar í fararbroddi og eyddi og spennti á alla kanta. Það rifjast upp mjög ítarleg frásögn forstjóra stærsta verktakafyrirtækisins sem stóð að þeirri framkvæmd, Jóhanns G. Bergþórssonar sjálfstæðismanns, bæjarfulltrúa sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, þar sem hann lýsti því í bók sinni hvernig þau mál gengu fram á síðustu mánuðum þeirrar framkvæmdar rétt fyrir kosningarnar 1987 þegar allt fór á annan endann og fyrirskipun kom úr utanrrn. á þeim tíma, það mætti engu eira og ætti ekkert að spyrja um fjármuni. Það ætti bara að klára verkið fyrir kosningar. Það tókst en svo kom það í hlut annarra að borga og menn eru auðvitað enn þá að bíta úr nálinni með þetta. Samgöngumálin eru í algeru lamasessi og þess vegna hlýtur maður að árétta það þegar ríkisstjórnin hefur út af fyrir sig lýst uppgjöf sinni þegar kemur að byggðamálum og byggðastefnu, lýst uppgjöf sinni varðandi aðgerðir til þess að stemma stigu við fólksflóttanum af landsbyggðinni, hvort þau skilaboð sem er að finna í samgöngumálunum í fjárlagafrv. séu einmitt merkin um það að uppgjöfin sé alger, það verði bara látið reka á reiðanum, hugsanlega settir einhverjir starfshópar í málið, hugsanlega búnar til einhverjar frekari skýrslur, jafnvel stýrihópar sem er nýjasta orðið. En að það finnist einhver staður eða punktur til þess að standa gegn þeirri stefnumörkun sem síðan er endurbyggð með fjármunum það er alls ekki þannig, þvert á móti. Menn tína peninga úr mörkuðum tekjustofnum til vegamála, til flugmála og setja í ríkissjóð.

[19:30]

Virðulegi forseti. Ég vík þá aftur sögunni að utanrrn. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir það að koma hingað og hlýða á mál mitt. Ég hóf þann kafla ræðu minnar er laut að utanríkisþjónustunni með því að rifja upp tölur úr fjáraukalögum. Meiri hluti þingsins, stjórnarsinnar, samþykkti þau og staðfesti þann veruleika sem birtist í frv. til fjáraukalaga með því að samþykkja þau lög. Þar var að finna um það bil 400 kr. framlag til tveggja stórverkefna. (Gripið fram í: 400 kr.?) 400 millj. kr. Ég þakka leiðréttingu hv. formanns þingflokks Framsfl. Hefði mátt ætla að framkvæmdir þær hefðu í raun dottið af himnum ofan, þ.e. þarna var utanrrn. var nánast nauðbeygt til þess að bregðast við hratt og örugglega. Vissulega geta slík tilvik komið upp á. Þess vegna höfum við þetta fyrirbrigði sem heitir fjáraukalög þó að menn hafi sannarlega misnotað það mjög í gegnum tíðina og ekki aðeins í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það hefur auðvitað gerst áður. Af þessum sökum rifjast upp fyrir mér stjórnsýsluendurskoðun á utanrrn. sem Ríkisendurskoðun skilaði frá sér í maí 1996. Þar er m.a. ítarlegur og upplýsandi kafli um húsnæðismál utanrrn. eða öllu heldur sendiráð á erlendri grundu. Þá kemur í ljós að þetta tilvik t.d. varðandi sendiráðið í London gerðist ekkert skyndilega. Þau mál eru búin að vera í farvatninu um árabil. Ég er ekki sérfræðingur í málinu og hef því ekki skoðanir á því hvort menn hafi tekið rétta ákvörðun í fjáraukalögunum með því að endurnýja leigusamninginn og ráðast í kostnaðarsamar breytingar á sendiherrabústaðnum upp á 290 millj. kr. En upphæðin er auðvitað alveg gífurleg og maður fær ekki botn í hana þegar maður reynir að finna einhverja samsvörun hér á Íslandi. Verðlagið er kannski allt annað og hæstv. ráðherra upplýsir þá hv. þm. um það. En í umræddri skýrslu Ríkisendurskoðunar er grein gerð fyrir því að menn hafi gert athuganir og í maí 1996 segir orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar: ,,Í ráðuneytinu er áhugi á að athuga með hugsanlega sölu fleiri sendiherrabústaða ekki, síst bústaðarins í London.`` Þetta er í maí 1996.

Ég spyr því beint: Hvers vegna vantaði áform utanrrn. varðandi breytingar, sölu eða endurbætur á sendiherrabústaðnum í Lundúnum við fjárlagagerð síðasta árs? Þurfti það mál að koma inn í fjáraukalög með þeim hætti sem hér gerist?

Hið sama gildir um þær endurbætur sem gerðar voru á sendiherrabústað í Washington upp á 90 millj. kr. Ég spurðist raunar fyrir um það í þinginu fyrir nokkrum vikum. Ég fékk ítarleg svör við því og vil nota tækifærið og þakka fyrir þau. En í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 1996 í maí er einmitt alllangur kafli um sendiherrabústaðinn í Washington og þar eru raktar tölulegar stærðir þess máls. Þar kemur fram að nauðsynlegar endurbætur gætu kostað 1--11/2 millj. dollara. Þess er einnig getið að verið sé að skoða annað húsnæði sem stæði til boða og væri álíka nothæft. Í maí 1996 var besti kosturinn talinn nýbyggt hús um 930 fermetrar að stærð sem líklega fæst fyrir um það bil 2,9 millj. Bandaríkjadala.

Í þessu verkefni voru menn komnir á fljúgandi ferð í maí 1996 og því spyr ég bara beint: Hvers vegna í fjáraukalögum? Var í þessum efnum verið að fela eitthvað sem ekki mátti koma fyrir augu manna eða til almennrar umræðu áður en í var ráðist?

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni vil ég taka nokkuð fram af því að hv. þm. Jón Kristjánsson sem annars er málefnalegur reyndi að snúa út úr orðum mínum á dögunum. Hann fór að blanda í málið þeirri staðreynd að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson mundi sennilega flytja í þetta sama hús þegar hann tæki við starfi sem sendiherra í Washington um næstu áramót. Það skiptir engu máli í þessu samhengi. Nú vil ég að hæstv. ráðherra leggi við hlustir. Ef til stæði að fara út í endurbætur eða húsakaup upp á 400 millj. kr., þá er ég hræddur um að nokkrar yrðu nefndirnar, nokkur ráðin, nokkrar skýrslurnar og nokkur yrði nú umræðan í þessum sölum áður en af stað yrði farið.

Menn gagnrýndu það nokkuð við þessa umræðu að á Stjórnarráðinu sjálfu voru gerðar endurbætur upp á 60 millj. kr. Ég sá það í sjónvarpinu fyrir einhverjum mánuðum síðan að það hús hafði nánast verið gert fokhelt. Ég tek þau orð forsrh. trúanleg að það ekki hafi verið hægt að bíða mikið lengur af því að ég þekki eilítið það hús. Við erum að tala um 60 millj. kr. á sjálfu Stjórnarráði Íslands en í hinu tilvikinu um 400 millj. kr. Þá kem ég kannski að aðalástæðu þess að ég óskaði nærveru hæstv. utanrrh. hingað á þessum fundi. Auðvitað hef ég verið að staldra við orðinn hlut því að fjáraukalögin hafa verið samþykkt og við snúum ekki tímanum aftur í þessum efnum.

Ég hóf ræðu mína á því, virðulegi forseti, að mig grunaði að eitthvað fleira væri í pípunum. Þegar ég les áform utanrrn. um húsakaup. á næsta ári í þeim fjárlögum sem við erum núna að fjalla um, þá finn ég þar ekki aðra tölu en 150 millj. kr. Þær eru ætlaðar til áframhaldandi framkvæmda við sendiráð í Berlín og eins og ég gat um fyrir nokkrum dögum þá geri ég engar athugasemdir við það. Ég tel það skynsamlega ráðstöfun og það að slá saman í púkk með öðrum Norðurlandaþjóðum hafi verið skynsamlegt.

En ég spyr hins vegar af því að hér í skýrslum Ríkisendurskoðunar skynjar maður að það er fleira í pípunum: Hvernig og hvar ætla menn að finna fjármagn til varanlegs húsnæðis fyrir nýtt sendiráð og nýjan sendiherra í Helsinki? Hvernig á að bjarga þeim málum án þess að nota peninga? Eru engin áform þar um kaup á húsnæði, breytingar eða lagfæringar? Þarf enga peninga í húsnæðisaðstöðu fyrir hið nýja sendiráð umfram þá fjármuni sem þar er varið til leigu?

Hv. þm. Sturla Böðvarsson rifjaði upp í ágætri ræðu hér í þinginu að hann að hann hefði fyrst frétt af því að opna ætti sendiráð í Helsinki í Finnlandi þegar hann, varaformaður fjárln., fékk boð frá utanrrn. eða viðkomandi sendiráði um það að hann ætti að mæta til opnunarveislunnar.

Það hefur verið í umræðunni og báðir oddvitar ríkisstjórnarinnar lýst áhuga sínum í þá áttina að opna ætti sendiráð í Japan. Það er væntanlega skynsamlegt af þeirra hálfu og hlutur sem ég væri alveg til umræðu um. En ég hlýt að spyrja í ljósi reynslunnar: Á það heldur ekki að kosta neitt? Hefði ekki verið skynsamlegra, ef oddvitum ríkisstjórnarinnar er alvara í þeim efnum, að leita eftir heimild Alþingis með því að flytja tillögu um málið? Hefði ekki mátt fara leið hv. þm. Jóns Kristjánssonar og búa til húsnæðispott ráðuneytisins fyrir það sem í vændum er?

Minni upptalningu er ekki lokið hvað þetta varðar. Í skýrslu Sigurðar Þórðarsonar ríkisendurskoðanda og raunar líka í orðum hv. þm. Jóns Kristjánssonar fyrir viku þegar ég spurði hvað væri í vændum, þá kom París til tals. Þá nefndi hann að það þyrfti að taka á þeim málum. Þar væri mikill uppsafnaður vandi hvað varðar endurbætur og viðhald. Aðspurður nefndi hv. þm. að París væri á dagskrá. Ég hlýt að spyrja, ef selja á þetta hús (Utanrrh.: Það er búið að selja það.) Það er búið að selja það, já. (JónK: Og kaupa annað í staðinn.) Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt, virðulegi forseti. Var það seinni partinn í dag eða fyrradag? (JónK: Ég sagði það við umræðuna.) Ég varð ekki var við það og sé það heldur ekki í breytngatillögum við fjárlögin og mér þætti vænt um að það væri þá upplýst hér við þessa umræðu með skýlausum hætti. Hvert var söluverð þess húss? Hvernig á að verja þeim fjármunum sem fyrir það koma? Ég held að það þýði ekkert fyrir hæstv. ráðherra að hrista höfuðið þó hann hafi ekkert gaman af því að sitja með okkur þingmönnum við þessa umræðu. Hann verður bara að þola það enda kemst hann ekkert hjá því. (Utanrrh.: Það er gott að ræðumenn lesi eitthvað áður en þeir fara í ræðustólinn.) Það er einmitt það sem sá hv. þm. sem hér stendur hefur gert. Það ætti þá að vera létt verk fyrir hæstv. ráðherra að vísa til skriflegra gagna í þeim efnum. Ég kannast ekki við að við þessa fjárlagagerð séu einhverjar tilfærslur eða markaðar tekjur sérstaklega vegna sölu á sendiherrabústað í París né þá útgjöld. Fróðlegt væri að fá það þá upp á borðið. Og í ljósi þess sem gerðist í Washington, þá spyr maður sig: Hafa menn fast land undir fótum með það hvað þetta nýja húsnæði á að kosta? Þarf að gera við það? Er það að hruni komið og þarf endurbætur upp á tugi eða hundruð milljóna?

Ég er ekki með neina útúrsnúninga. Ég er ekki að ráðast á á einn eða neinn. Ég er einfaldlega að lesa úr þeim veruleika, virðulegi forseti, sem við okkur blasir í þessu og það þýðir ekki fyrir hæstv. utanrrh. að fara í einhverja fýlu af þessum sökum eða fussa og sveia. Með því leggur hann lítið til umræðunnar. Auðvitað veit ég að honum líður illa undir umræðunni. Hann verður þess var að almenningur í landinu á erfitt með að fá botn í það þegar fjárfestingar fyrir sendiherra, mikilvæga starfsmenn íslenska ríkisins á erlendri grundu, skipta orðið hundruðum millj. kr. á innan við ári. Og af því að ég bar það saman til gamans þó að það sé ekkert gamanmál, þá hafa menn á sama tíma staðið í stríði með mikilvægt og aðkallandi verkefni, byggingu barnaspítala. Í því tilviki þakka menn fyrir þær 200 millj. kr. sem renna til þess verkefnis. En það hefur ekki verið létt verk að koma því á koppinn. Nei, þar er langur vegur frá og hefur aldeilis tekið sinn tíma.

Eins og ég gat um áðan, virðast stundum gilda önnur lögmál, tregðulögmál þegar kemur að mikilvægum verkefnum í velferðarkerfinu. Allt annað virðist hins vegar upp á teningnum þegar byggja þarf stórt og veglegt hús á erlendri grundu.

[19:45]

Nú vil ég líka árétta það, virðulegi forseti, að ég og við jafnaðarmenn höfum verið talsmenn þess að efla og styrkja utanríkisþjónustuna því að Alþfl. hefur í gegnum tíðina verið einn íslenskra stjórnmálaflokka sem hefur ævinlega komið hreint fram í þeim efnum að hann vill öflug og góð tengsl við útlönd. (VS: Er hv. þm. ekki að fara svolítið í hringi?) Ef hv. þm. skilur orð mín þannig þá verð ég bara að endurtaka þau þannig að hún skilji. En staðreyndin er sú sem menn verða að horfast í augu við það --- og þá sérstaklega framsóknarmenn og sjálfstæðismenn raunar líka --- að Alþfl. hefur einn flokka verið í fararbroddi um það að styrkja og efla tengsl Íslands við útlönd til að vera öflugur á alþjóðavettvangi. En það byggir ekki á því, hv. þm., væntanlegur ráðherra (VS: Nú?) eins og sagan segir sem er nú annar kapítuli sem ég mun koma eilítið inn á á eftir, að byggja flott og stórt yfir sendifulltrúa. Það byggir á allt öðrum elementum, m.a. þeim að samþykkja alþjóðasamninga um EES og vinna þannig úr alþjóðasamningum sem við höfum gert, m.a. um GATT, að við séum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og að við látum til okkar taka á erlendum vettvangi. Það gerum við ekki með því að byggja flott og fínt og dýrt hafi hv. þm. haldið það. En ekki fleira um það.

Ég vil að við stöndum myndarlega að verki í okkar utanríkisþjónustu en ekkert andskotans --- fyrirgefðu orðbragðið hæstv. forseti --- bruðl. Við erum komin í tóma þvælu með þessi mál og ég óska eftir því að ... (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Þingmaðurinn biðst afsökunar á þessu orðbragði og mun ekki endurtaka það.

En ég vek á því athygli og tel ástæðu til þess að benda hæstv. utanrrh. á það að á bls. 94 í þessari skýrslu gerir hann ákveðnar tillögur um það hvernig best sé að standa að uppbyggingu sendiráða og húsnæðismálum starfsfólks þannig að sem ódýrast megi verða og hagkvæmast. Ég tel að þegar meiri tími gefst til hér eftir áramót, ástæðu til að fara nánar yfir það hvort ráðuneytið sé með einhverja frekari könnun í gangi um það hvernig best megi standa að því því að mér finnst sannarlega þessi dæmi sem ég hef rakið hér sýna að hér eru mál að fara úr böndum. Það er ekkert öðruvísi.

Ríkisendurskoðandi bendir m.a. á að stærð sendiherrabústaðanna er mjög mismunandi. Hún er allt frá því að vera 250 fermetrar upp í 654 fermetra og hann segir hér að að áliti utanrrn. sé heppileg stærð húsnæðis a.m.k. 330 fermetrar. Það eru þrjár húseignir eða fjórar sem eru langt umfram þessi stærðarmörk. Er því ekki ástæða til þess að endurmeta þessa hluti talsvert?

Af því að ég gerði það að umtalsefni í upphafi ræðu minnar að þó að nóg sé um peninga þá er auðvitað ástæða til að reyna að stemma stigu við hreinum og klárum útgjöldum þegar tök eru á. Það verður ekki hjá því komist að ljúka umræðu við 3. umr. fjárlaga án þess að vekja á því athygli að á sama tíma og peningarnir renna inn í ríkissjóð í stríðum straumum og margar þarfir eru uppfylltar vítt og breitt í samfélaginu --- því verður ekki neitað að verið er að koma til móts við fjölmarga mjög víða, það er óumdeilanlegt --- þá tekst mönnum ekki þrátt fyrir þessa gífurlegu tekjuaukningu hjá ríkissjóði á yfirstandandi og sýnilega á komandi ári að gera neitt í því að leysa þann vanda sem sannanlega er hjá stóru sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu og ekki síst á Akureyri. Það er algerlega óskiljanlegt með öllu.

Það er ósköp skiljanlegt að hann skuli vera býsna veikur og falskur sá ómur sem er að finna hjá stjórnarþingmönnum þegar þeir reyna að halda því fram í þessum ræðustóli að fjárþörf þessara þriggja sjúkrahúsa, Ríkisspítalanna, Sjúkrahúss Reykjavíkur og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri megi leysa með 300 millj. kr. og stýrinefnd þegar fjárþörfin er sýnileg og sannarlega 1.500 millj. og er þá ekkert ofreiknað í þeim efnum. Hvernig eiga menn að fá það til að ganga upp og fá það til að koma heim og saman að stýrinefnd geti sagt ,,hókus pókus`` og lækkað fjárþörf sem er 1.500 millj., niður í 300 millj? Það dæmi gengur ekki upp og það er enginn bragur á því, virðulegi forseti, að menn ætli að ganga þannig frá málum í lok þingsins að vísa því á framtíðina eða á komandi fjáraukalög. Það er ekki nokkur bragur á því.

Ég studdi heils hugar hér og hef gert það í tíð þessarar ríkisstjórnar til að mynda að hækka mjög verulega fjárframlög til heilbrrn., til skrifstofunnar þar, til þess að það ráðuneyti væri betur í stakk búið til að sinna þeim veigamiklu verkefnum sem á því hvíla því að ég þekkti það dálítið af eigin raun að þar var mannfæð, þar vantaði fleira starfsfólk, þannig að ráðuneytið sjálft gæti verið frumkvæðisaðili og öflugur eftirlitsaðili með því að hægt væri að halda úti heilbrigðiskerfinu í landinu með virkum hætti og fyrir sem minnstan pening. Þess vegna eru mér það mikil vonbrigði að þrátt fyrir að hið háa Alþingi hafi tekið þessum beiðnum heilbrrh. vel um að styrkja ráðuneytið, þá skuli menn taka allt aðra ákvörðun hér og nú og taka verkefnið út úr ráðuneytinu og setja í einhverja stýrinefnd. Mér finnst það grafalvarlegt mál og enginn samhljómur í því miðað við það sem menn hafa verið að leggja upp með á yfirstandandi kjörtímabili í tíð þessarar ríkisstjórnar þannig að það er eitt af mörgum dæmum þess að manni finnst að eitt sé sagt og annað gert og menn séu svona eilítið að missa tökin á þessu öllu saman.

Því geri ég það að mínum lokaorðum, virðulegi forseti, að það er út af fyrir sig ekki að undra þó að sumir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar vilji pakka saman og kveðja þegar allt er í hásveiflu vitandi um það að innan tíðar kunna erfiðleikar að bíða. Innan tíðar kemst ríkisstjórnin ekki hjá því að taka á ýmsum aðkallandi verkefnum og getur ekki látið fljóta mikið lengur. Mín tilfinning er sú að það gerist fyrr en síðar, jafnvel upp úr miðju næsta ári þannig að það þarf kannski ekki að koma nokkrum á óvart að flótti sé hlaupinn í liðið.

(Forseti (StB): Forseti vill að gefnu tilefni hvetja hv. þingmenn til að gæta að orðavali sínu.)