Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 19:53:39 (2845)

1997-12-19 19:53:39# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[19:53]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykn. hefur mælt hér nokkur varnaðarorð um að safna ætti tekjuafgangi í góðæri og spurði mig beinnar spurningar: ,,Ef ekki er tekjuafgangur núna, hvenær þá?`` Ég hef lagt áherslu á að það verði að skila ríkissjóði í jafnvægi í góðæri. Mér finnst þegar verið er að rifja upp afkomuna að það gleymist að 8 milljörðum kr. hefur verið varið á síðustu tveimur árum í að skuldbreyta lánum ríkissjóðs sem kemur til góða í framtíðinni með tekjuauka upp á 700 millj. á ári. Það verður að taka það með í reikninginn þegar menn eru í samanburðarfræðum. Hins vegar hefur ræða hv. 9. þm. Reykn. gengið út á útgjaldatillögur og kallað á meiri útgjöld jafnframt því sem hann segir að það verði að skila með verulegum afgangi. Síðan hafa ræður annarra gengið út á að hækka skatta og auka umfang ríkissjóðs til þess að jafna þann mun. Mér finnst ekki alveg samhljómur í þessum málflutningi.