Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 21:11:35 (2855)

1997-12-19 21:11:35# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:11]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm., formaður Alþfl., hefur hér málað skrattann á vegginn í nokkrar mínútur. Það er ástæða til að leiðrétta sumt af því sem fram hefur komið hjá honum.

Í fyrsta lagi: Þótt ekki sé alveg hægt að bera saman niðurstöðutölur fjárlagafrv. eins og það stendur nú og ríkisreiknings á undanförnum árum, þá munar ekki miklu. Má ég minna hv. þm. á að 1996 var 8,7 milljarða halli samkvæmt ríkisreikningi. Árin 1994 og 1995 var hallinn um 15 milljarðar. Því er spáð að á næsta ári verði jafnvægi á rekstrarreikningnum. Færslur vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eru færðar með nákvæmlega sama sniði á næsta ári eins og verið hefur á undanförnum árum á rekstrargrunninum.

Í öðru lagi: Ef við lítum á greiðslugrunninn þá liggur fyrir að á næsta ári má gera ráð fyrir 3 milljarða afgangi. Einhver afgangur verður á yfirstandandi ári ef ekki eru taldar með þær vaxtagreiðslur sem koma vegna sérstakrar innlausnar. Árið 1991 var 15--16 milljarða halli á sama verðlagi og yfirleitt á árunum þar á eftir um 10 milljarða halli. Þetta er árangurinn. Þetta eru nokkuð margir milljarðar árlega. Skuldastaðan var 1996 51% af landsframleiðslu en verður á næsta ári innan við 43% af landsframleiðslu. Lánsfjárþörfin á næsta ári verður líklega 7 milljörðum minni en hún er á yfirstandandi ári.

Virðulegi forseti. Þetta segir auðvitað margt um það hvað hefur verið að gerast í ríkisfjármálunum og segir okkur það fyrst og fremst að sem betur fer hefur okkur tekist í megindráttum að leggja til hliðar í því góðæri sem hér er nú og hefur verið á síðustu árum og mun væntanlega halda áfram á næstu árum.