Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 21:18:06 (2858)

1997-12-19 21:18:06# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:18]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það að bera saman niðurstöðutölur ríkisreiknings og áætlunartölur fjárlagafrv. eins og hæstv. ráðherra gerði kalla ég að bera saman epli og appelsínur. Mér er hins vegar alveg sama hvort hann kallar fjárlagafrv. sitt epli og ríkisreikningana appelsínur eða fjárlagafrv. sitt appelsínu og ríkisreikningana epli. Það má hann alveg eiga við sjálfan sig.

Hæstv. fjmrh. talar um hversu vel áætlanir hans í fjárlögum hafi staðist og ekki bara hans eins, ég tek það fram. (Fjmrh.: Okkar beggja.) Ég býst við, herra forseti, að ef hæstv. fjmrh. hefði fengið að vera einn um málið og ef hann hefði notið þess stuðnings sem fjmrh. þarf að njóta frá sínum yfirmanni, hefðu áætlanirnar verið réttari. En ég vil benda hæstv. fjmrh. á að útgjaldaáætlanir hans hafa aldrei staðist og munar þar mörgum milljörðum kr. Það sem hefur bjargað honum á yfirstandandi ári var að tekjuspáin stóðst ekki heldur, þ.e. það sem bjargaði hæstv. ráðherra á yfirstandandi ári var að engar af hans spám fengu staðist.